145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[18:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er kannski ekki að öllu leyti sammála því sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði. Einhvers staðar þarf hið pólitíska vald að hafa aðkomu. Einhvers staðar þarf að taka af skarið um það hvaða stefnu skal fylgja. Í dag er það Alþingi sem mótar stefnuna á grundvelli faglegrar umfjöllunar um tillögu sem kemur frá framkvæmdarvaldinu. Gott dæmi um það er þegar ég sem utanríkisráðherra lagði fram tillögu um hvernig ætti að haga fjárveitingum til þróunarsamvinnu fram að árinu 2020. Ég lagði þá fram ákveðna áætlun sem miðaðist við það hvernig ætla mætti að hagþróun yrði á Íslandi og hvernig við gerðum ráð fyrir að við kynnum að verða aflögufær miðað við hvernig okkur gekk að krafla okkur upp úr bankahruninu. Hæstv. ráðherra var mér ósammála þá. Hann var óbreyttur stjórnarandstöðuþingmaður, sat í utanríkismálanefnd, hann og ekki bara hann heldur allir þingmenn í utanríkismálanefnd töldu að ég hefði farið of hægt í sakirnar. Það var að tillögu utanríkismálanefndar sem áætlunin varð framhlaðin. Ég sætti mig auðvitað vel við það. Ég hafði ekki haft kjark til að koma með hana svo útlítandi sem utanríkismálanefnd að lokum vildi.

Með öðrum orðum, auðvitað þarf atbeina þingsins, atbeina framkvæmdarvaldsins til að móta stefnu, sjá um að hrinda henni í framkvæmd og hafa eftirlit með því og Alþingi verður að koma reglulega að því. En þess utan get ég svo sem verið sammála hv. þingmanni að það er engin sérstök brýn nauðsyn til þess að Alþingi fylgist um of með málinu. Það er hins vegar þannig að um sum okkar sem hér sitjum, þar á meðal mig, má segja að við höfum mikinn áhuga á þróunarmálum og þróunarsamvinnu og viljum gjarnan beita (Forseti hringir.) okkur í því gegnum þingið.