145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði gjarnan viljað heyra meira frá stjórnarmeirihlutanum um hlutverk þingmanna í þessu öllu saman vegna þess að það er umræða sem er vissulega þess virði að taka. Þegar kemur hins vegar að aðkomu þingsins að málaflokknum þá er breið pólitísk samstaða um hana. Sömuleiðis hlýtur, að ég tel, aðalágreiningurinn að snúast um fjármögnun stofnunarinnar. Nú er óumdeilt að stofnunin stendur við fjárlög, sem er gott. Við getum flett upp hvað hún notar. Við getum talað við fulltrúa hennar og þeir geta komið á fund nefnda, ekki bara einhverra fimm þingmanna í einhverri nefnd, heldur þeirra þingnefnda sem þurfa svör eða þeirra þingnefnda sem fulltrúar stofnunarinnar vilja tala við. Ég sé ekki að þessi aðferð leysi neitt vandamál.

Nú geta allir þingmenn gert athugasemdir við fjárlög. Við getum alltaf komið hingað í pontu í umræðu um störf þingsins og rætt um þau gögn sem við þekkjum til stofnunarinnar eða ef upp kemur eitthvað mál. Við höfum þetta vald. Pólitíska aðkoman er nægileg eins og hún er, fyrir utan það að það liggur alveg fyrir í öllum umsögnum sem ég hef lesið um málið að stofnunin sinnir faglegu hlutverki, að starfinu sé best borgið faglega og að það komi niður á starfinu ef hlutur eins og þjóðarhagsmunir eða eitthvað því um líkt fer að þvælast fyrir. Þetta eru ekki þannig ákvarðanir. Við eigum ekki að standa hér og velta fyrir okkur endilega hvað er best fyrir viðskiptahagsmuni Íslands í sambandi við þróunaraðstoð. Þetta eru miklu faglegri spurningar en það. Við eigum að koma fram við þær eins og þær séu faglegar.

Síðast en ekki síst. Við eigum að bera virðingu fyrir stofnunum sem standa sig vel gagnvart verkefninu og gagnvart fjárlögum. Hvort tveggja er satt um þessa stofnun. Við eigum að virða það og við eigum að halda áfram að gera það sem við gerum vel og vera ekki að laga eitthvað sem er ekki bilað.