145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við komum alltaf að þessum punkti aftur og aftur hér í umræðunni, þ.e. af hverju að breyta því sem er í lagi. Það hefur ekki verið sýnt fram á þörfina á því að gera þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu sem við ræðum hér um.

Ég verð að segja það að þrátt fyrir að hæstv. ráðherra hafi verið viðstaddur alla þessa umræðu þá hefur hann ekki séð ástæðu til þess að taka til máls, fara í andsvar og svara þessari grundvallarspurningu sem aftur og aftur er borin upp. Ég leyfi mér að giska á að það sé vegna þess að hæstv. ráðherra hefur ekkert svar við þessu.

Nú er það svo að í maí síðastliðnum skilaði hæstv. utanríkisráðherra skýrslu um skipulag þróunarsamvinnu samkvæmt beiðni, ég man nú í fljótheitum ekki hverra, (Gripið fram í.) Katrínar Jakobsdóttur og fleiri hv. þingmanna, ég man ekki alveg hversu margir þeir voru, en þeir voru allnokkrir sem voru á þessari skýrslubeiðni. Þar er í 21 tölusettum lið settar fram spurningar sem vöknuðu m.a. eftir þær umræður sem höfðu átt sér stað hér í þingsal. Það sem sló mig þegar ég las síðan þessa skýrslu er að þar er ekki að finna nein rök fyrir því hverju eigi að breyta. Heil skýrsla. Þar eru ekki þessi rök. Minnist hv. þingmaður þess (Forseti hringir.) að svona skýrsla hafi komið fram til stuðnings máli sem liggur fyrir þinginu án þess að svara í rauninni grundvallarspurningu?