145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður hóf spurningu sína á því að fara nokkrum orðum um þá sérkennilegu staðreynd að hér situr hæstv. utanríkisráðherra og þrumar í sæti sínu án þess að svara nokkrum spurningum sem til hans er beint eða nokkrum athugasemdum. Ég verð að segja að það kemur mér líka á óvart. Hæstv. ráðherra var hér allra vaskastur á fæti hv. þingmanna í stjórnarandstöðu síðasta kjörtímabili, það er ekki hægt að saka hann um að á þeim tíma hafi hann ekki haft munninn fyrir neðan nefið eða haft áræði til þess að koma sínum skoðunum á framfæri. Þannig að ég deili undrun hv. þingmanns. Þetta er eins og að koma út á morgnana og lóan er þar en hún er hætt að segja dirrindí.

Að því er varðar þá fyrirspurn sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir ásamt mér og ég hygg öllum sem áttu sæti þá í hv. utanríkismálanefnd lagði fram, þá er í fyrsta lagi mjög sjaldgæft að þingmál af hendi framkvæmdarvaldsins komi fram í þinginu sem er svo vanbúið og svo fátt að upplýsingum að þingheimur telur sér þann kost grennstan að leggja fram spurningar, sem mig minnir að hafi verið í 29 liðum, til þess að gerast fær um að komast til umræðunnar, til þess að reyna af veikum burðum að skilja tilganginn með því.

Í öðru lagi er það algjörlega fáheyrt að svör við slíkum spurningum slái frekar striki undir málflutning þeirra sem telja það ekki gott að ráðast í þessa breytingu. Þar kemur til dæmis alveg skýrt fram að Ríkisendurskoðun hefur þessa stofnun nánast í hávegum, hefur ekki gert nokkrar athugasemdir við hana og svo mætti lengi telja.

Þannig að ég er sammála hv. þingmanni um að þetta mál er sérkennilega af stað sett. Ég man ekki eftir máli þar sem (Forseti hringir.) svona lítill stuðningur er tjáður af hálfu stjórnarliðsins.