145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:14]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til þess að fullyrða það að DAC mundi verða við slíkri bón ef hún bærist frá þinginu nema ljóst væri að hún bærist frá meiri hluta þingsins. Við slíkar aðstæður tel ég það koma til greina. Auðvitað væri það farsælast ef menn vilja fara þá leið, ef meiri hluti þingmanna er þeirrar skoðunar, að hæstv. utanríkisráðherra sem hefur með höndum samskipti við þessa stofnun á þessu sviði kæmi slíkri beiðni á framfæri. Af því að ég er raunsæismaður þá geri ég mér ekki miklar vonir um að hæstv. ráðherra geri það. Hann hefur bara sett hausinn undir sig í þessu máli og telur að hann tapi andlitinu á þessu sviði eins og kannski fleiri sviðum ef hann beitir ekki öllu því afli sem hann getur náð í málinu með því að kúga samstarfsflokkinn til hlýðni í því. Ég vænti þess að þetta mál sé partur af einhvers konar hrossakaupum á bak við ef að líkum lætur.

Í öllu falli er að ýmsu að huga í þessu máli. Í fyrsta lagi: Vilja menn ná pólitískri samstöðu um viðkvæman málaflokk? Í öðru lagi: Ef menn vilja það geta þeir þá fallist á það að slíðra vopnin og sameinast um það að bíða eftir jafningarýni DAC? Í þriðja lagi: Eru menn nægilega víðsýnir til þess að skoða fleiri möguleika eins og t.d. þann sem fyrst var bent á af Davíð Oddssyni í tíð hans sem utanríkisráðherra og enn er bent á með fræðilegri rökum en Davíð gerði á sínum tíma í umsögn félagsvísindasviðs Háskóla Íslands? Sá möguleiki felur í sér að í staðinn fyrir að setja stofnunina inn í ráðuneytið séu öll verkefni (Forseti hringir.) ráðuneytisins flutt til stofnunarinnar. Það er ein leið sem ætti að skoða og mundi skýra verkaskiptinguna ef menn telja að það sé nauðsynlegt.