145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:17]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru góð skoðanaskipti sem hér eiga sér stað. Ég held að við séum að mörgu leyti sammála um ansi margt sem snýr að þessu máli. Hér var talað um DAC og mér finnst það undirstrika svo vel áhyggjurnar af þessu að DAC bendir á að skólar Sameinuðu þjóðanna sem fá u.þ.b. 15% þróunarfé Íslands hafi ekki verið teknir út eða árangursmældir. Það er kannski faglega ekki sterkt og ég vék að því áðan að ég hefði áhyggjur af því hvort mælingar yrðu áfram með sambærilegum hætti. Þótt ég telji ekki mælingar upphaf og endi alls þá skipta þær máli því þetta eru miklir fjármunir sem við erum að fjalla um og viðkvæmur málaflokkur. Þess vegna finnst mér það mjög athyglisvert.

Þróunarsamvinnan tekur auðvitað tíma. Þetta er langhlaup og endurspeglast kannski í því sem hæstv. forsætisráðherra sagði um flóttamannamálin í hádeginu að þetta er ekki eitthvað sem gerist bara sisvona, heldur er þetta langtímaverkefni og það þarf að halda utan um það. Mér finnst að það eigi að vera gert af því fagfólki sem hefur gert það undanfarin ár.

Í allri þessari umræðu megum við ekki gleyma því að það er fólk í framandi umhverfi sem er viðtakendur þessarar aðstoðar. Ég spyr mig um rödd þess. Hvernig verður henni fyrir komið? Hver er hagræðingin fyrir fólkið í samstarfslöndunum? Bara til að taka annan snúning á þá umfjöllun um málið sem við höfum átt hér á þingi, við höfum horft svolítið mikið bara á skipulagið.