145. löggjafarþing — 9. fundur,  21. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:21]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það var nú þannig. Ég er sammála þingmanninum og það hefur komið fram í máli okkar í dag um starfsfólkið og þá þekkingu og reynslu sem hefur byggst upp hjá stofnuninni. Mig langar aðeins að lesa úr ársskýrslu ÞSSÍ fyrir árið 2014, með leyfi forseta:

„Óháðar úttektir sem gerðar voru á verkefnum sem lokið hafði verið gáfu einnig til kynna að íslensku þróunarsamvinnufé hefði verið vel varið. Þannig staðfesti lokaúttekt á vatns- og hreinlætisverkefni í Malaví mikinn ávinning í lífsskilyrðum og heilsu þeirra sem þess nutu. Heildarúttekt á samvinnu Íslands og Namibíu í fiskimálum staðfesti einnig að þar hefði náðst góður og varanlegur árangur sem miklu skipti fyrir framfarir í Namibíu.“

Alls staðar eins og við höfum rakið eru umsagnir svona. Nú þekki ég aðeins til reynslu fólks frá fyrstu hendi af því að hafa verið á vettvangi, tekið þátt í svona verkefnum, bæði á vegum Þróunarsamvinnustofnunar og með öðrum hætti í ólíkum löndum og allir sem ég hef talað við telja að það sem máli skipti sé nándin við verkefnin. Fólk óttast að þetta verði til þess að hún minnki og eins og ég hef sagt áður að þegar málin eru komin inn í ráðuneyti sem eru kannski ekki almennt þekkt fyrir skilvirkni og hraða afgreiðslu þá verður þetta erfitt.

Ég held að það sé mikilvægt að efla starfsnemakerfið til þess að laða að ungt fólk sem getur hugsað sér að starfa í þessum geira af því að hér var verið að tala um fullorðið fólk sem er kannski búið að starfa í áratugi. Það er auðvitað spurning hvort ungliðakerfið sem er núna hjá ráðuneytinu sé eitt af því sem ætti frekar að flytja til ÞSSÍ, í sambandi við starfsöryggi (Forseti hringir.) og annað því um líkt sem fylgir, það er kannski frekar til þess fallið að við getum endurnýjað fólkið mun hraðar en ella.