145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Landsbanki Íslands boðaði með viku fyrirvara lokun á þremur bankaútibúum á Vestfjörðum, þ.e. á Þingeyri, á Suðureyri og í Bolungarvík. Því miður er það svo að það er ekki í fyrsta skipti sem Landsbankinn, fyrirrennari hans, sem nýr eigandi að Sparisjóði Norðurlands, veitir þung högg inn í atvinnumál Bolvíkinga og þjónustumál.

Það hefur komið fram í fréttum að ellefu störf leggjast af og tveimur starfsmönnum hefur verið boðin störf á Ísafirði. Ríkið stendur líka í stórræðum vegna þess að það hefur flutt sýslumannsembættið, meðal annars lagt af störf við innheimtu vanskilagjalds vegna skoðunar ökutækja sem var hjá sýslumanninum og var í Bolungarvík en hefur verið lagt af og flutt á Ísafjörð. Nýlega las hjúkrunarfræðingur í Bolungarvík það í fréttum að starf hennar í Bolungarvík hefði verið lagt niður og auglýst. Þannig mætti áfram telja. Læknir kemur einu sinni í viku.

Virðulegi forseti. Það er þannig að sparisjóðakerfið, þar með talinn Sparisjóður Bolungarvíkur og þeir sem heyrðu undir sparisjóðafjölskylduna eins og það var stundum kallað, var lagt af í tíð núverandi ríkisstjórnar og á hennar vakt með stuðningsmönnum hennar, þ.e. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég spyr því, virðulegi forseti: Hvað ætla þingmenn að gera varðandi það sem þarna er að gerast? Sá sem hér stendur vann að því lengi og taldi sig meðal annars vera í viðræðum um það við ráðherra í ríkisstjórn að endurreisa sparisjóðakerfið, eins og hægt var að gera með annað bankakerfi á Íslandi, með aðkomu ríkisins og í framhaldi að selja það fjárfestum sem vildu ganga inn í sparisjóðakerfið. En það tækifæri var ekki nýtt og það gerðist á vakt þessarar ríkisstjórnar.

Það sem er að gerast vestur á fjörðum og á ef til vill eftir að gerast á fleiri stöðum er á ábyrgð núverandi ríkisstjórnarmeirihluta og þess vegna spyr ég: (Forseti hringir.) Hvað ætla stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar að gera? Hér þarf að grípa til aðgerða og það strax.


Efnisorð er vísa í ræðuna