145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Vaxandi fjöldi fólks er á flótta vegna stríðsástands í heiminum. Aðrir leggja á flótta því að þeir sjá einfaldlega enga framtíð í heimalandi sínu vegna viðvarandi fátæktar. Loftslagsbreytingar munu í framtíðinni auka enn á þennan vanda.

Síðustu daga og vikur hefur oft heyrst í umræðunni um hvað gera skuli til að takast á við þessa gríðarlegu fólksflutninga að rétt sé að hjálpa fólki sem næst heimahögunum og koma þannig í veg fyrir að fólk þurfi að leggja á flótta. Með eflingu þróunarsamvinnu getum við lagt af mörkum til að hjálpa fólki heima hjá sér og aukið trúna á að ekki þurfi endilega að leita að bættri framtíð annars staðar.

Þessa dagana er hér í þingsal verið að ræða frumvarp um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands. Þingmenn minni hlutans hafa lýst áhyggjum sínum af því að þar eigi að breyta einhverju sem er ekki bilað en geti hins vegar haft neikvæð áhrif á þróunarsamvinnu Íslands. Ég vil því nota tækifærið hér þegar salurinn er þétt setinn og hvetja hv. þingmenn til að setja hlutina í samhengi og velta því fyrir sér hvernig þeir telja þetta fara saman, að vilja hjálpa fólki heima hjá sér en að ætla á sama tíma að fara í vanhugsaðar breytingar á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna