145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

störf þingsins.

[13:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Getur það verið að lögreglunni sé gleymt hér í landinu? Getur það verið að lögreglan eigi erfitt með að ná eyrum stjórnvalda hvort heldur er í ríkisstjórn eða á Alþingi? Getur það verið að lögreglan njóti ekki sömu kjarabóta og aðrir hópar hafa verið að fá á vinnumarkaði?

Ég held að þetta hljóti að vera áleitnar spurningar fyrir okkur í þinginu sem fylgdumst með framgöngu lögreglunnar og því gríðarlega álagi sem á henni var á ögurstundum í sögu þjóðarinnar og ekki síður fólkið sem hér fyrir utan stóð og fylgdist með þeim aðdáunarverða framgangi sem lögreglan sýndi við hinar erfiðustu aðstæður. Það kallar auðvitað á að hlustað sé eftir röddum lögreglumanna, ábendingum þeirra og áhyggjum af stöðu kjaramála sinna og því að þeir hafi þar dregist aftur úr.

Ekki síður hlýtur það að vera okkur umhugsunarefni þegar til þess er litið að lögreglumenn hafa ekki verkfallsrétt. Annaðhvort verða lögreglumenn að fá kjarabætur eins og aðrir hópar eða þeir verða að fá verkfallsrétt, virðulegur forseti. Það er holur hljómur í því hjá ráðamönnum að tala fyrir því að mikilvægt sé að ekki séu átök á vinnumarkaði og að menn þurfi að finna skynsamlegri leiðir við að bæta kjörin í landinu, ef þeir eru síðan ekki tilbúnir til þess í reynd að bæta kjör þeirra sem engan verkfallsrétt hafa. Sannarlega er það víti til að varast ef það á að vera svo að skortur lögreglumanna á verkfallsréttinum verði til þess að þeir dragist aftur úr öðrum í kjörum hér í landinu.


Efnisorð er vísa í ræðuna