145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:06]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Umræða um skatta hefur tilhneigingu til að fara mjög fljótt að snúast um það hvort tilteknir skattar séu of háir eða of lágir. Skattlagning er að mínu viti mjög vandasöm og hana ber að nálgast af mikilli kostgæfni, enda ábyrgðarhluti að taka til sín fé og útdeila því öllum til heilla. Slík framkvæmd, hversu göfugur sem tilgangur hennar er, kallar á ótal spurningar og mikið eftirlit. Hvað er rétt hlutfall í þessu tilliti og hvar á að byrja að skattleggja og hvenær nóg er nóg skal ósagt látið þótt mér finnist sérstök ástæða til að halda því til haga að ég treysti fólki til þess að fara með peningana sína og sjálft sig eins og það telur best hverju sinni. Á sama tíma er líka mikilvægt að halda því til haga að skattar og gjöld eru undirstaða þess að við getum staðið undir allri þeirri þjónustu og þeim skuldbindingum sem við komum okkur saman um.

Í þessari sérstöku umræðu um tekjustofna sveitarfélaganna langar mig að velta upp skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á því skattfé sem við sem samfélag innheimtum og hvernig því er best skipt í samræmi við þau verkefni sem við erum að sinna hverju sinni og munum koma til með að sinna í framtíðinni.

Samfélag okkar er að breytast mjög hratt. Ég hef þá trú að við séum að færast mjög hratt inn í mjög breytta heimsmynd sem kallar á að við tökum upp gömul þrætumál óhrædd og finnum lausn á þeim eða komum þeim í það minnsta í ásættanlegri farveg en fingrabendingar. Samskipti ríkis og sveitarfélaga eru eitt af þessum óleystu þrætumálum sem virðast bara hlaða utan á sig. Það ríkir ákveðin uppgjöf í þessum samskiptum á báða bóga og oft og tíðum mikið vantraust. Ég segi þetta ekki út í loftið því að það var mjög áhugaverð reynsla fyrir mig persónulega að vera varaformaður velferðarráðs Reykjavíkur í nokkur ár og verða vitni að þessum ágreiningi. Ég get sagt að ég finn ekki fyrir því að hann hafi færst í einhverja sérstaklega ásættanlega átt. Í flestum tilfellum verður bitbein í þessum samskiptum verkefni sem báðir aðilar eiga að sinna, annaðhvort lögum samkvæmt eða út frá einhverjum samningum sem þeir hafa gert sína á milli, og helsta deilumálið snýr gjarnan að því hver eigi að borga hvað. Dæmi um þetta er rekstur hjúkrunarheimila, tónlistarskólar og geðheilbrigðisþjónusta. Reksturinn og þjónustan sem verið er að veita líður oft fyrir þetta og bitnar á þeim sem síst skyldi, almennum borgurum sem greiða fyrir þjónustuna.

Svo eru verkefni sem sveitarfélögin hafa tekið alfarið yfir með það fyrir augum að bæta þjónustuna og færa hana nær fólkinu sem er verið að veita þjónustuna hverju sinni. Það er til dæmis rekstur grunnskóla og nýlega þjónusta við fatlað fólk. Með þessum verkefnum hefur fylgt fjármagn í formi hækkaðs útsvars eða fjármuna sem farið hafa í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Á teikniborðinu eru og hafa verið til lengri tíma áform um að sveitarfélögin taki líka við þjónustu við eldri borgara. Í þessu samhengi er mjög mikilvægt að benda á að á næstu áratugum er ráðgert að Íslendingum, eldri en 50 ára, muni fjölga um 44% á meðan þeim sem eru 49 ára og yngri muni fjölga um 4%. Mér finnst blasa við að hérna er um að ræða gjörbreyttan veruleika sem við verðum að tala um og horfast í augu við enda kallar hann á nýjar leiðir og nýjar nálganir. Þær tel ég að sé einmitt að finna hjá þeim sem sinna þessari þjónustu í dag, enda hafa flestir verið mjög meðvitaðir um þessa þróun og flaggað henni lengi. Það breytir þó ekki því að viljinn til þess að taka við verkefninu er takmarkaður þegar ekki hefur enn tekist að loka síðasta yfirflutningi á stórum málaflokki, þjónustu við fatlað fólk, þannig að vel sé. Ég heyri æ oftar sveitarstjórnarfólk tala um það í mikilli alvöru að skila málaflokknum aftur til ríkisins komi ekki til viðurkenningar á því að málaflokkurinn er vanfjármagnaður og brugðist verði við þeirri stöðu.

Mig langar að fá fram skoðanir hæstv. fjármálaráðherra og annarra þingmanna hér í salnum á því sérstaklega hvaða leiðir hæstv. fjármálaráðherra sér fyrir sveitarfélögin til að standa undir þeim kröfum sem þjónusta sem þau veita kallar á, hvort hæstv. ráðherra hafi skoðað það með opnum hug að víkka út og þar með styrkja tekjustofna sveitarfélaganna svo að þau geti með góðu móti staðið undir þessari þjónustu í dag og í framtíðinni. Eru tekjustofnar sveitarfélaganna eins og þeir eru í dag sjálfbærir? Vísa ég þá í þann hóp skattgreiðenda sem greiðir einungis fjármagnstekjuskatt og ekkert útsvar en þiggur að sama skapi þjónustu frá sveitarfélögum. Telur ráðherrann koma til greina að sveitarfélög fái hlutdeild í fjármagnstekjuskatti, virðisaukaskatti eða þá sérstöku gistináttagjaldi á ferðamenn til að standa straum af styrkingu innviða sem kosta mörg sveitarfélög mikið af peningum sem annars gætu farið í þjónustu? Eða telur hann að þau þurfi einfaldlega að skera meira niður í rekstri eða hætta að sinna þjónustu sem þau hafa hingað til sinnt?