145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að efna til þessarar umræðu um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta er eins og við öll vitum margþætt umræða sem kemur inn á það hvernig hið opinbera hagar skattheimtu sinni gagnvart fólki og eftir atvikum fyrirtækjum en einnig hvernig skipting tekna skal vera milli ríkis og sveitarfélaga. Við þekkjum það að sjálfsögðu öll að á undanförnum rúmlega tveimur áratugum hafa verið stigin allnokkur stór skref í að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og því hafa fylgt tekjustofnar fyrir sveitarfélögin. Eins og hv. málshefjandi kemur hér inn á þá hafa verið allnokkur dæmi þess að sveitarfélögunum þyki þeir tekjustofnar hafa reynst heldur rýrir þegar þjónustan var komin á það stig sem sveitarfélagið vildi bjóða upp á.

Þetta er mál sem á sér líka þá hlið að líklega eiga sveitarfélögin erfiðara með að standast kröfur um aukna og bætta þjónustu og þannig horfir málið stundum aðeins öðruvísi við þegar því skrefi er náð. Við getum síðan sagt hér að það sé betra að fólk geti sótt þjónustu í sitt nærumhverfi en sá þáttur hefur kannski ekki alltaf verið tekinn með.

Við vitum að sveitarfélögin sinna mjög mikilvægu þjónustuhlutverki gagnvart íbúum landsins og tekjustofnunum þremur, útsvari, fasteignaskatti og framlögum úr jöfnunarsjóði. Þeim er ætlað sameiginlega að tryggja að sveitarfélögin geti innt þetta hlutverk af hendi. Aðrar tekjur falla svo til í samræmi við aðra starfsemi sveitarfélaga, til að mynda tekjur af eignum og stofnunum sem reknar eru í almannaþágu, svo af lóðaleigu og leyfisgjöldum, allt eftir því sem lög mæla fyrir um. Á seinni árum hafa líka komið til viðbótartekjur af ýmsum toga fyrir tilstuðlan breytinga sem eiga rætur sínar að rekja hingað í þingið. Ég gæti nefnt til dæmis tekjur sem hafa fallið til út af útgreiðslu séreignarlífeyris eða skattahækkanir á síðasta kjörtímabili sem juku framlagið til jöfnunarsjóðs þar sem jöfnunarsjóðurinn fær 2,12% af heildartekjum ríkisins. Sérstakur bankaskattur hefur líka skilað sér til sveitarfélaganna. Þetta hafa verið óhefðbundnir, tímabundnir tekjustofnar fyrir ríkið sem hafa líka skilað sér til sveitarfélaganna. Ég held þessu til haga fyrir utan annað sem ég gæti svo sem nefnt í þessu sambandi en læt ógert.

Nú er staðan sú að tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga eru minni en þær sem sveitarfélögin bera úr býtum í staðgreiðslukerfinu þrátt fyrir að útsvarið sé 14,44% en á móti er miðþrep tekjuskattsins í dag 25,3%. Þetta helgast af því að ríkið tryggir sveitarfélögunum ávallt útsvar íbúanna en fjármagnar persónuafsláttinn. Á árinu 2014 voru þannig 7% af heildarútsvarstekjum sveitarfélaganna fjármögnuð með persónuafslætti frá ríkinu, eða tæpir 11 milljarðar. Það er að minnsta kosti ein leið til að líta á þessi fjárhagslegu samskipti gegnum staðgreiðslukerfið að ríkið fjármagnar sem sagt persónuafsláttinn allan.

Við þekkjum kröfuna um að hækka skattleysismörkin. Höfum það þá í huga að í staðgreiðslunni þýðir það alltaf kröfu á ríkið og enga kröfu á sveitarfélögin, enda er óskaplega sjaldan minnst á það að sveitarfélögin eigi eitthvað að gefa eftir af útsvarinu til að létta undir með fólki. Ég nefni þetta hér sérstaklega vegna þess að það má ekki gleyma því í þessum fjárhagslegu samskiptum hversu gríðarlega traustur tekjugrunnur útsvarsstofninn er fyrir sveitarfélögin.

Ég nefndi áður að 2,12% af innheimtum skatttekjum ríkisins fara í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og með hækkandi tekjum hækkar framlagið til jöfnunarsjóðsins. Þetta verða um 13,3 milljarðar á næsta ári. Hv. málshefjandi nefndi nokkra skattstofna, fjármagnstekjuskatt, virðisaukaskatt og gistináttaskatt, og maður gæti svo sem látið sér detta í hug aðra skattstofna, en þá bendi ég á móti á að með því að við tökum heildarskattstofnana og tökum 2,12% af þeim og verjum inn í jöfnunarsjóðinn þá gerum við það með þeim óbeina hætti.

Að öðru leyti vil ég bara ljúka máli mínu á því að segja að þetta er umræða sem skiptir mjög miklu máli. Við hljótum öll að vilja eiga góð samskipti við sveitarstjórnarstigið. Ég hef fullan skilning (Forseti hringir.) á því að sveitarstjórnarstigið kalli eftir málefnalegri umræðu um fjármögnun einstakra verkefna sem sveitarfélögin hafa tekið yfir en (Forseti hringir.) þau eru mjög misjafnlega í sveit sett til að sinna stórum verkefnum. Hluti þessarar umræðu held ég að ætti að fara fram milli (Forseti hringir.) sveitarfélaganna hvernig þau ættu mögulega með sanngjarnari hætti að deila því sem er til skiptanna í jöfnunarsjóðnum.