145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:19]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka upp þessa mikilvægu umræðu sem er dýpri og mikilvægari en svo að við getum klárað hana á hálftíma. Hv. þingmaður beindi sjónum sínum fyrst og fremst að breyttri stöðu að því er varðar ferðaþjónustu og þar af leiðandi náttúruvernd og uppbyggingu vinsælla ferðamannastaða þannig að ég ætla í mínu innleggi hér að halda mig við þann þátt málsins þó að sannarlega séu fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga efni í miklu lengri umræðu. Við sjáum það til að mynda í fjárlagafrumvarpi hæstv. ráðherra að skuldastaða ríkisins fer batnandi á þessu ári og inn í framtíðina en því er öfugt farið með sveitarfélögin. Þau eiga í viðvarandi og stöðugum vanda inn í framtíðina og það er nokkuð sem við verðum líka að skoða í ljósi breyttra og aukinna verkefna sem sveitarfélögin hafa tekið á sig. Þar á meðal er þjónusta við fatlaða.

Mig langar sérstaklega að staldra við það að þessum vinsælu ferðamannastöðum er ekki endilega skipt eftir fjölda íbúa. Við erum til að mynda með stór og víðáttumikil svæði þar sem mjög margir njóta náttúrunnar. Ég nefni Skútustaðahrepp, sem í daglegu tali er oftast nefndur Mývatnssveit, og Skaftárhrepp sem eru mannfá sveitarfélög en taka við gríðarlegum fjölda gesta. Þessi sveitarfélög eru líka í þeim vanda að meiri hluti þeirra sem vinna á sumrin við ferðaþjónustuna greiðir útsvar annars staðar. Það er líka þáttur sem við þyrftum að skoða í þessu samhengi öllu, þ.e. möguleikann á því að skipta útsvari milli sveitarfélaga, annars vegar búsetunnar og hins vegar þess svæðis sem viðkomandi vinnur á stóran hluta ársins.

Nú er svo ótrúlega komið að það eru sjö sekúndur eftir og ég er rétt að byrja en ég vona að þessi umræða leiði til góðs.