145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:23]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er umræða sem ég verð að viðurkenna að ég hefði betra af að hlusta meira á en að tala mikið um. Mér þykir hún mjög áhugaverð og sér í lagi svar hæstv. fjármálaráðherra sem ég kem til með að hlusta á aftur og aftur þar til ég tel mig skilja hvert aukatekið orð fullkomlega.

Mér þykir mikilvægt að sveitarfélögin séu sem sjálfstæðust og ég tel lykilatriði í því vera að þau geti fjármagnað sig með góðu móti, sem við vitum að er ekki tilfellið í dag.

Mér þykja það því mjög áhugaverðar hugmyndir að þau fái hlutdeild í tekjuskatti fyrirtækja eða virðisaukaskatti eða því um líku en þó einungis með þeim fyrirvara að það hjálpi þeim raunverulega. Ég kalla eftir því að sveitarfélögin sjálf láti í sér heyra í þessari umræðu þannig að við fáum betur á hreint hvað mundi henta þeim.

Eins og fram hefur komið er ekki endilega samasemmerki á milli þess að mikil viðskipti séu í tilteknu sveitarfélagi og mikið af fólki. Það er þáttur sem getur mjög auðveldlega skekkt niðurstöðuna. Ef mikill iðnaður er í einu sveitarfélagi þar sem ekki er margt fólk eða öfugt yrðu niðurstöðurnar væntanlega mjög frábrugðnar. Mér finnst mikilvægt að þetta liggi fyrir þegar við ræðum þessar hugmyndir.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, hvort tilefni sé til þess að ráðast í sérstakt verkefni þar sem markmiðið yrði skýrt og að mínu mati ætti það markmið að vera að treysta sjálfstæði sveitarfélaganna.

Ég hef heyrt þessa umræðu áður og þá hefur fólk haft áhyggjur af því að slíkar hugmyndir mundu einungis hygla Reykjavík og nágrenni, vegna þess að meiri hluti þjóðarinnar býr á höfuðborgarsvæðinu. Mér þykir mjög mikilvægt að við tökum tillit til þeirrar orðræðu og aukpössum að hvað svo sem við gerum sé það gert í sátt við sveitarfélögin öll.