145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

tekjustofnar sveitarfélaga.

[14:34]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þessa umræðu hérna upp. Umræða um fjárhag sveitarfélaganna er auðvitað gríðarlega mikilvæg og hvernig þau geta staðið undir verkefnum sínum. Umræðan hefur fyrst og fremst snúið að hlutdeild í tekjustofnum sveitarfélaga og hvort þau eigi að fá aukna hlutdeild í ákveðnum tekjustofnum. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég held að við verðum að skipta sveitarfélögunum í tvo flokka, annars vegar lítil og meðalstór sveitarfélög og hins vegar stór sveitarfélög.

Staðan er auðvitað sú að mörg litlu og meðalstóru sveitarfélögin eiga gríðarlega erfitt með að taka á sig þau verkefni sem stóru sveitarfélögin kalla oft og tíðum eftir að fá til sín. Mörg litlu sveitarfélögin hafa á undanförnum árum skorið gríðarlega mikið niður og eru einfaldlega komin á þann stað að þau hafa ekki möguleika til frekari hagræðingaraðgerða. Það er nánast orðið svo í mörgum þessara sveitarfélaga að kostnaður við lögbundin verkefnin eins og rekstur skóla og annað því um líkt er langstærstur hluti af gjöldum þeirra.

Síðan eru stóru sveitarfélögin, m.a. eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Eins og hv. þm. Brynjar Níelsson kom inn á þá er auðvitað allur gangur á því hvernig rekstri þar er háttað en þau sveitarfélög sem eru í tekjuvanda á höfuðborgarsvæðinu, t.d. Reykjavíkurborg, verða auðvitað að taka á sínum vanda heima fyrir. Ég er sannfærður um að Reykjavíkurborg getur gert mun betur í hagræðingu en gert hefur verið á undanförnum árum og getur þá litið til þeirra litlu sveitarfélaga sem hafa mátt taka á sig gríðarlegar hagræðingaraðgerðir vítt og breitt um landið á undanförnum árum.

Ég er hins vegar jákvæður fyrir því að við tökum umræðuna um það hvort sveitarfélög eigi að fá aukna hlutdeild í tekjustofnum og þá hvaða tekjustofnum. Ég bendi á að við skulum ekki blanda því saman, það verður að skipta þeim með einhverjum hætti, þessum stóru og litlu sveitarfélögum. Ég held að það séu (Forseti hringir.) sér í lagi lítil og meðalstór sveitarfélög sem þurfa á þessu að halda.