145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:48]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og þær margvíslegu góðu ábendingar sem þar komu fram. Ég vildi taka upp þráðinn um pólitíska spillingu, tengsl viðskiptahagsmuna og stjórnmála sem gætu orðið býsna náin þegar málin eru ekki vistuð í sjálfstæðri stofnun undir faglegri stjórn embættismanna heldur tekin inn í pólitískt ráðuneyti undir yfirstjórn stjórnmálanna. Telur þingmaðurinn ástæðu fyrir okkur Íslendinga til að hafa áhyggjur af pólitískri spillingu og því að þeim fjárveitingum sem í þessum málaflokki er auðvitað stundum varið í samstarfi við fyrirtæki eða einkaaðila um ýmis verkefni í öðrum löndum og hafa áhyggjur af því að ekki sé armslengd milli stjórnmálanna og útdeilingar fjármunanna í þessu efni? Telur þingmaðurinn að við þurfum að varast pólitíska spillingu og hvers kyns hættu á henni í þessum mikilvæga málaflokki?