145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:53]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Þegar hv. þingmaður segir að hæstv. ráðherra sé einn í málinu hugsar maður strax að þingmenn meiri hlutans hafa algjörlega verið fjarri þessari umræðu. Þau hafa ekki tekið þátt í henni þannig að ég veit ekki hvað þeim finnst um þetta, hvort þau eru almennt sátt. Ég veit ekki hvort ráðherrann er svona auðsveipur en margir ráðherrar hafa lent í því eða verið á þá ýtt að gera þetta. Í fjöldamörg ár hefur það ekki tekist, ráðherrar hafa staðið það af sér. Ég hef sagt það áður hér að ég veit ekki hvers vegna svona mikill þrýstingur virðist vera innan úr ráðuneytinu. Ég held að ráðherrann hafi ekki endilega fundið þetta upp hjá sjálfum sér.

Ég hefði sjálf viljað ræða meira innihald en umgjörð og held að það hefði verið árangursríkara. Ég hef viljað ræða framlögin og hvað við erum að gera, hvernig á vettvangi o.s.frv. í staðinn fyrir að eyða hér, eins og hv. þingmaður nefndi einmitt, mörgum dögum í utanumhald og form sem, eins og ráðherrann hefur sagt og komið hefur fram í skýrslum, er í sjálfu sér ekki ástæða til að breyta. Að minnsta kosti eru röksemdirnar fyrir því óskaplega veikar þannig að það hefði verið mun vænlegra til árangurs og auðvitað bara innihaldsríkara að takast á um það í ljósi batnandi hags eigin samfélags að við mundum frekar auka framlögin til þróunarsamvinnu en standa í því að þvarga hér um tilurð stofnunarinnar. Auðvitað reynir maður að standa vörð um hana af því að hugsunin er sú að maður telur að þróunarsamvinnu sé betur fyrir komið þar.