145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[14:56]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ólíkt hv. þingmanni og þeim þingmanni sem kom í andsvar við hana áðan frekar litið svo á að þetta sé nefnilega aðeins meira en formbreyting. Ég lít svo á að það verði ákveðin eðlisbreyting á starfseminni með því að fara þessa leið. Sú nálgun sem menn eru að fara frá er gríðarlega skýr, það er mikil sérhæfing í stofnuninni sem hefur safnað sér mikilli fagþekkingu og fengið gríðarlega góða dóma frá fagaðilum erlendis frá eins og t.d. DAC fyrir starfsemi sína. Þetta er sérhæft fag, þetta er gríðarlega viðkvæmt og sérhæft fag. Þess vegna lít ég svo á að þegar menn ákveða að taka það úr þeim farvegi og grauta saman við önnur verkefni í ráðuneyti þá sé það eðlisbreyting en ekki formbreyting. Þegar maður skoðar þetta út frá því sjónarhorni finnst mér þetta töluvert alvarlegt mál og þess vegna þurfum við eins og hv. þingmaður nefnir að ræða það efnislega hvað við viljum í þróunarsamvinnu áður en menn gera svona breytingu. Sú umræða hefur ekki farið fram.

Mig langar þess vegna að spyrja hv. þingmann, ef við reynum að hugsa dálítið konstrúktíft, hvernig við viljum vinna þetta mál. Við höfum góð dæmi og í gær voru nefnd ágæt dæmi um það hvernig við getum sett átakamál í farveg. Þetta er klárlega átakamál. Þetta er viðkvæmur málaflokkur sem okkur er gríðarlega umhugað um og ráðherrann hefur heldur ekki neinn sérstakan stuðning við málið í eigin röðum eða röðum stjórnarflokkanna, alla vega er hann ekki sýnilegur hér. Þá velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi eitthvað hugsað það í hvaða farveg við getum sett þetta mál til að reyna að komast að vitrænni niðurstöðu, niðurstöðu sem setur ekki þróunarsamvinnumálin í eitthvert uppnám til lengri tíma.