145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:00]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála hv. þingmanni. Ég vona að hæstv. ráðherra sé að hlusta og sé til í að fara í þann leiðangur með okkur vegna þess að okkur hefur tekist hingað til að mestu leyti að halda þessum málaflokki utan átakafarvegs. Við náðum samstöðu um málið 2008, þegar þessi heildarlöggjöf varð til, menn náðu ágætri sátt um málið þótt auðvitað væru einhverjir núansar milli flokka, það er alltaf þannig. En í grófum dráttum voru menn nokkuð sáttir um þetta og ég held að við verðum að gæta að því að halda málaflokknum þannig.

Ég vona að ráðherrann sé til í að kalla okkur til og velta því upp hvort hægt sé að ná þessu í meiri samstöðufarveg. Ein leið væri að bíða eftir jafningjamati DAC á næsta ári, taka því bara rólega með málið, leggja það til hliðar þangað til og síðan fá þverpólitískan hóp til að rýna þá niðurstöðu með sérfræðingum í faginu og sjá hvort þar sé eitthvað sem gefi tilefni til að fara þessa leið eða einhverja aðra. Stóra spurningin hlýtur að vera sú sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði hér: Hvað erum við að fara að laga með þessu og hvað er það sem er að? Svarið við þeirri spurningu hefur aldrei komið fram og áður en við leggjum af stað í þann leiðangur að breyta fyrirkomulaginu þá þurfum við að vita svarið við spurningunni: Hvað er það sem við ætlum að laga? Það væri kærkomið tilefni til að fara í gegnum það í svona vinnu ef hæstv. ráðherra væri tilbúinn að taka í þá útréttu sáttarhönd og fara í slíkan leiðangur með okkur, bíða eftir úttektinni og við mundum síðan rýna hana í sameiningu og gera þær úrbætur sem þarf að gera í sátt.