145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:02]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Miðað við það að hæstv. ráðherra leggur þetta mál fram svo snemma eins og hann gerir nú þá hef ég því miður ekki mikla trú á því að sáttarhönd sé í boði. Ég vonast auðvitað eindregið til þess að hann hlusti og átti sig á því að hann hefur ekki fullan stuðning við málið, jafnvel ekki innan sinna raða. Hvað er mikilvægt í málinu? Og eins og hér var sagt og við höfum mörg velt upp: Hvað er það sem þarf að laga, hvers vegna þarf að breyta þessu? Ef það þarf að laga eitthvað má þá ekki gera það eins og ég sagði áðan á hinn veginn? Þarf að fara þá leið að færa stofnunina inn í ráðuneytið?

Ég vil fyrst og fremst hugsa um þetta út frá því að þróunarsamvinna er langtímaverkefni, þróunarsamvinna þarf að takast vel. Hún þarf mikinn undirbúning og framkvæmd og svo þarf hún að fara í mat og það mat hefur verið jákvætt. Þess vegna er það sem er undirliggjandi í þessari skýrslu og lagt til grundvallar því að færa starfsemina inn í ráðuneytið allt of veikt. Ég held að það hefði frekar átt að hugsa um það hvort það sé einhver hagræðing í þessu fólgin fyrir fólkið í samstarfslöndunum okkar. Fylgir þessu einhver hagræðing fyrir fólkið sem er viðtakendur þessarar aðstoðar úti í hinum stóra heimi í samstarfslöndum okkar? Mér finnst það vera stór spurning sem ekki hefur verið svarað í þessari umræðu af hálfu þeirra sem leggja málið fram.