145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:22]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er mjög hugsi yfir þessum þætti. Það er náttúrlega kannski svolítið kerfiskerlingarlegt að vera upptekin af þessum hluta. En nú er það auðvitað þannig að við erum ekki ofalin af fjármagni eða mannafla í íslenska stjórnkerfinu og það ætti að vera sjálfstætt og sérstakt markmið, ég tala nú ekki um þegar fólk er farið að setja á stofn sérstaka hagræðingarhópa, að vera ekki að eyða tíma og peningum í vitleysu. Bara það eitt og sér að vera ekki að hreyfa og færa til eitthvað bara af því að mig langar til að gera það eða af því að einhver í einhverju ráðuneyti ýtir á að það sé gert, ég tala ekki um þegar engin augljós merki eru um að eitthvað sé að, eins og hv. þingmaður benti réttilega á og margir hafa talað um hér í umræðunni.

Ég held að ýmis sóknarfæri séu í íslenska Stjórnarráðinu og í stofnanauppbyggingu Stjórnarráðsins. Ég held að hægt sé að sameina stofnanir og hægt sé að gera ýmislegt gagn í því að gera það betur. En það má ekki vera tilviljunarkennt og það má ekki vera ófaglegt. Það má ekki vera þannig að fólk búi við það, t.d. starfsmenn Fiskistofu, að sjá bara allt í einu í fréttum að til standi að flytja stofnunina út á land eða þá að einhver stofnun verði lögð niður eða tekin inn í ráðuneytið með einu pennastriki. Það gengur ekki.

Það er ekki boðlegt fyrir það góða fólk sem er þarna úti og vinnur í okkar umboði, í umboði Alþingis, að það búi við það óöryggi að ekki sé skýr stefnumörkun fyrir hendi um það hvernig þessi verkefni þróist inn í framtíðina, heldur virðist þetta vera háð pólitískum geðþótta og tilviljunarkenndum ákvörðunum. Ég tek því undir það með hv. þingmanni að mér finnst þetta ekki ganga og ég hélt og vonaði að vinnubrögð af þessu tagi heyrðu sögunni til.