145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður bætir við í geðþóttalista og geðþóttaákvarðanir ráðherranna Fiskistofu og ég er hrædd um að ef við stæðum hérna svolítið lengur mundi fleira rifjast upp og það er einmitt þetta sem ég er svolítið hrædd um. Mér finnst eins og sumir, margir ráðherrar í núverandi ríkisstjórn átti sig ekki á því að það að vera ráðherra er ekki neitt grín. Það er háalvarlegt hlutverk og í slíku embætti ber mönnum að fara eftir reglum og lögum en ekki því sem þeim finnst eða þá langar til að gera þá og þá stundina. Mér finnst það skipta máli.

Mig langar aðeins til að spyrja þingmanninn hvort hún geti verið sammála því sem hefur komið fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar, að það væri kannski ærið verkefni fyrir okkur núna að skoða yfirstjórn eða hvernig farið er með þróunarmál Þróunarsamvinnustofnunar eða hvað sem er, vegna þess að í frumvarpinu er lagt til að stofnuð verði einhver þróunarnefnd, minnir mig að hún heiti, ég man það ekki alveg, þar sem eiga að sitja menn frá borgaralegum félögum úr háskólanum og svo fimm alþingismenn. Hv. þingmaður kom inn á það að ekki er gert ráð fyrir þverpólitískri stofnun eða „representation“ ef ég má orða það svo og biðst afsökunar, virðulegi forseti, þ.e. hvort hún geti verið sammála því sem hefur komið fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Kannski væri nóg að við horfðum á það hvernig við ætlum að hafa yfirstjórnina um Þróunarsamvinnustofnun þá óbreytta að öðru leyti?