145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[15:53]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem ýmsum mjög mikilvægum og áleitnum spurningum var velt upp, þá kannski ekki hvað síst því hvers vegna hæstv. ráðherra liggi svona á að breyta lögunum áður en jafningjarýni DAC liggur fyrir. Líkt og hv. þingmaður kom inn á í máli sínu erum við núna sex mánuðum nær því að þessi rýni liggi fyrir. Og svo ekki síður það að sér í lagi, kannski vegna þess, vantar allan rökstuðning fyrir þessu, hvort það sé kannski þess vegna einmitt sem það liggur svona á að drífa þetta í gegn, að ráðherrann hafi í rauninni engin rök, sé ekki tilbúinn til að svara og vilji bara þess vegna keyra þetta í gegn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann þar sem hún endaði ræðu sína á að velta fyrir sér valdinu og tilhneigingu hæstv. ríkisstjórnar til að draga til sín vald. Hv. þm. Svandís Svavarsdóttir benti á það áðan að ráðherra skipi ekki þinginu fyrir verkum heldur sæki hann vald sitt til þingsins. Fjarvera hv. þingmanna meiri hlutans hefur verið áberandi í þessari umræðu, það er eins og þeir telji málið ekki koma sér við, alla vega ekki miðað við þátttökuna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann: Hvaða áhrif hefur þetta á starf Alþingis til framtíðar? Nú hafa sumir hv. þingmenn talað um virðingu Alþingis. Eru þessi vinnubrögð, það hvernig umræðan fer hér fram, til þess fallin að auka virðingu og traust á Alþingi?