145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Því er auðsvarað: Ég held að þetta fyrirkomulag verði til þess að starfið verði verra eftir en áður. Ég held að það sem að baki tillöguflutningnum liggi sé fyrst og fremst ásókn í aukin völd yfir fjármunum og starfsemi, aukin pólitísk völd yfir þessum málaflokki sem er þó svo mikilvægt að um sé þverpólitísk samstaða. Í raun og veru er furðulegt að ráðherrann rjúfi þann góða einhug sem hér hefur verið um að standa sameiginlega að þessum málaflokki, byggja þverpólitískar brýr og einmitt á tímum þegar menn leggja áherslu á það að bæta stjórnmálamenningu okkar þannig að við náum á fleiri sviðum og í fleiri málum að taka höndum saman og vinna sameiginlega að sameiginlegum niðurstöðum og sameiginlegum verkefnum í stjórnmálunum. Furðulegt að ráðherrann skuli gera sér far um að spilla þó einum þeirra málaflokka þar sem þetta hefur tekist farsællega alveg þar til hæstv. utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson settist í ráðherrastól.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að þingið andæfi þessu vegna þess að aukin pólitísk áhrif í þessum málaflokki er ekki framfaraspor. Það hefur verið viðleitni hjá mörgum ráðuneytum og ráðherrum á undanförnum árum að sameina stofnanir inn undir ráðuneytið eða sameina stofnanir í eina stóra stofnun þar sem ráðherrann hefur fengið færi á því að ráða síðan nýja yfirstjórn inn. Allt miðar þetta fyrst og fremst að einu marki, að auka pólitísk ítök og pólitísk áhrif. Það er ekki það sem við eigum að gera. Við eigum að auka fagmennsku í stjórnsýslu okkar og hluti af því er að hafa þessa starfsemi armslengd frá stjórnmálunum og hafa þverpólitíska samstöðu um þær faglegu línur sem menn ætla að starfa við í þessum málaflokki.