145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:11]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Þetta er verulega sorgleg þróun og jafnvel er möguleiki að hæstv. ráðherra hafi hreinlega fengið vonda ráðgjöf. Ég trúi því ekki að hæstv. ráðherra utanríkismála sé svo sólginn í völd að hann sé ekki tilbúinn til þess hreinlega að endurskoða þessa tillögu.

Þetta minnir mig um margt á lítinn listagjörning sem listakonan Elísabet Jökulsdóttir gerði í tengslum við flóttamannakrísuna sem nú er. Hún tók upp vídeó þar sem kona stendur á brú og hindrar alla sem vilja komast yfir brúna. Þó veit konan ekki alveg af hverju hún er að koma í veg fyrir að allir þessir ólíku aðilar komist yfir brúna. Það er svolítið þessi samþjöppun á valdi sem mér virðist vera tilgangur þessarar misráðnu tillögu.

Mig langar hreinlega að skora á hæstv. utanríkisráðherra að endurskoða þessa tillögu. Ég held að það sé mjög brýnt að við stöndum saman. Það eru gjörbreyttir tímar frá því þessi tillaga var lögð fram fyrst. Við búum hreinlega í allt öðruvísi heimi þar sem er gríðarlega mikilvægt, eins og kom fram í máli hv. þm. Helga Hjörvars, að við finnum þverpólitískan vettvang til þess að vinna saman að því að tryggja að þetta endi ekki í einhvers konar valdaturni konunnar á brúnni þar sem engar skýringar liggja fyrir ákvörðunum sem eiga alls ekki að vera á hendi eins ráðuneytis (Forseti hringir.) og eins yfirmanns, heldur eiga þær að vera í höndum fólks í hinni þverpólitísku (Forseti hringir.) vinnu sem hefur átt sér stað í kringum þennan málaflokk undanfarið.