145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:14]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mistök geta menn gert einu sinni. Ég hélt á síðasta þingvetri að þetta hefðu bara verið byrjendamistök hjá ráðherranum. En þá verða menn auðvitað líka að læra af mistökunum. Hæstv. ráðherra er ekkert að læra af þessum mistökum, hann er bara að gera sömu mistökin aftur og heldur að herðast í sínum einmanalega leiðangri sem þetta má heita, sem hann rekur einn í andstöðu eða hlutleysi 62 þingmanna hér í þjóðþinginu, því að hann er farinn að senda yfirmanni stofnunarinnar bréf um að það hafi afleiðingar að andmæla eða benda á gallana á þessum mistökum sínum.

Það er hins vegar ákaflega mikilvægt að utanríkismálanefndin, það er auðvitað tilgangur þjóðþingsins, varni því að þessi mistök gangi hér í gegn. Hvernig er með þessi mál? Er það ekki þannig að hér voru þingmenn, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, að fara hönd í hönd á vettvang til þess að skoða stöðuna í flóttamannamálunum? Var það ekki þannig hér í þessum sal bara í gær að stjórnarandstaðan var að lýsa ánægju sinni með það sem stjórnin var að gera, og menn voru að vinna að sameiginlegum markmiðum í flóttamannamálinu? Er það ekki þannig að hér hefur fólk úr öllum flokkum sest niður við borð og rætt um það hvernig við sameiginlega gætum unnið að þróunarsamvinnu? Er ekki mikilvægt að utanríkismálanefnd standi vörð um þá mikilvægu þverpólitísku samstöðu sem verið hefur um þennan málaflokk og vindi ofan af þeirri flokkspólitísku slagsíðu og uppbroti sem verið er að reyna að gera á málaflokknum? Því það verður málaflokknum sannarlega ekki til gagns og stjórnmálamenningu á Íslandi heldur til ógagns að auka á flokkspólitíska sundrungu frá því sem nú er.