145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:31]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Þá er rétt að rifja það fyrir hæstv. ráðherra að þegar umræddur ráðgjafi skilaði sinni skýrslu upphaflega þá var engin tillaga um að Þróunarsamvinnustofnun yrði lögð niður. Engin tillaga. Það var talað um að farsælt væri að færa málin öll saman í einn stað, svipuð afstaða og Davíð Oddsson hafði á sínum tíma, sama afstaða og félagsvísindasvið Háskóla Íslands hefur, svo það sé algjörlega á hreinu. Það var ekki fyrr en skýrslan hafði farið í nudd hjá hæstv. ráðherra sem þetta kom út úr henni og var lagt fyrir nefndina.

Í þessu máli finnst mér mikilvægt að menn skoði hvort hægt sé að ná einhvers konar sáttum í þessu máli. Hæstv. ráðherra telur öll tormerki á því að beðið sé eftir skýrslu þróunarsamvinnunefndarinnar vegna þess að hún eigi ekki að koma fyrr en 2017. Ég tel eigi að síður að ef menn hafi raunverulegan vilja til þess að ná sáttum þá eigi menn að skoða það. Það er ekkert sem tapast á meðan vegna þess að það kemur fram m.a. í ræðu hæstv. ráðherra að stofnuninni gengur mjög vel.

Það sem um er að ræða er ekki að það þurfi að skerpa einhvers konar stefnumótun eða auka skilvirkni vegna þess að það kemur fram hjá starfsmönnum ráðuneytisins, kemur fram hjá þróunarsamvinnunefnd OECD að samskiptin eru snurðulaus, það er engin skörun um stefnumótun. Það er ekkert hagræði af þessu. Ráðherrann er auðvitað ráðherra, það er hæstv. ráðherra sem mótar stefnuna á grundvelli þess sem honum er falið af Alþingi, en það er stofnunin sem síðan hrindir henni í framkvæmd.

Það sem hæstv. ráðherra er að brjóta niður með þessu frumvarpi er vitaskuld sú regla sem Ríkisendurskoðun hefur verið að koma til verks í öllum stofnunum ríkisins að eftirlit og framkvæmd séu ekki á sömu hendi. Þannig að hér er um stórt skref aftur á bak að ræða hvað varðar heilbrigða og góða stjórnsýslu.