145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að fá umræðu um þetta atriði. Ég er alveg sérstakur áhugamaður um það og er á öndverðum meiði. Ég tel að almennu stefnumiðin sem birtast í 6. gr. frumvarpsins, um að stefnumörkun í opinberum fjármálum þurfi að byggjast til dæmis á sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi, séu mikilvægir mælikvarðar og mikilvægt að geta skírskotað til í umræðu um langtímastefnu en eru fyrir mína parta ekki fullnægjandi. Þeim til frekari stuðnings þarf tölulegar reglur og mér finnst að saga opinberra fjármála á Íslandi, og þá ætla ég ekki að nefna eitthvert eitt tímabil umfram annað, að samansöfnuð saga okkar sýni að lausbundnar reglur séu líklegri til að skapa mönnum svigrúm sem þeir betur hefðu ekki haft oft og tíðum.

Það sem ég er að hugsa hér um fyrst og fremst og umfram allt annað er hvað við getum lagt af mörkum í þinginu og í framkvæmd opinberra fjármála á vettvangi ríkisins og sveitarfélaganna til að styðja betur við sameiginlegt verkefni okkar með vinnumarkaðnum og Seðlabankanum í því að auka stöðugleikann í landinu sem er síðan forsenda þess að hér njótum við lægra vaxtastigs, að við losum okkur undan því að vera viðvarandi með of háa verðbólgu og getum þannig tryggt fólkinu í landinu lægri vexti, t.d. vegna húsnæðislána sem mun skipta sköpun fyrir félagslegt húsnæði og fyrir ungt fólk til að koma sér þaki yfir höfuðið, fyrir leigumarkaðinn og öll þau verkefni sem við erum alltaf að ræða. Ef við erum með of lausbundnar reglur og þingið hefur ekki skýrar reglur (Forseti hringir.) til að vísa í gagnvart framkvæmdarvaldinu tel ég að reynslan sýni að menn nota allt það svigrúm sem þeir fá og oft og tíðum endar það í yfirboðum fyrir kosningar. (ÖJ: Gerðum við það? Gerðuð þið það?)