145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:32]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir áðan hófst fljótlega eftir efnahagshrun undirbúningur við þetta frumvarp sem við ræðum hér. Í nóvember 2011 var skipaður stýrihópur til þess að vinna að endurskoðun á núgildandi fjárreiðulögum og þannig hafa tvær ríkisstjórnir og fjórir fjármálaráðherrar komið að vinnslu frumvarpsins. Slíkur undanfari ætti að vera góður undirbúningur til að ná sátt um það sem stendur í frumvarpinu, enda er frumvarpið í heild sinni þess eðlis að markmið þess munu ekki ná fram að ganga nema um það sé þverpólitísk sátt. Mér finnst þessi undirbúningur afar verðmætur í stöðunni og ferillinn allur hefur verið þannig að fjárlaganefndirnar á báðum kjörtímabilum hafa fengið að fylgjast með vinnu við frumvarpið. Starfsmenn fjárlaganefndar áttu sæti í hópunum sem unnu að einstaka köflum.

Báðar fjárlaganefndirnar hafa farið til Svíþjóðar til að skoða stöðuna þar. Við sækjum fyrirmyndir svolítið í það sem Svíar hafa gert vel og er komin góð reynsla af. Ég bind miklar vonir við það að núna eftir að mælt hefur verið fyrir frumvarpinu í þriðja sinn takist okkur að klára það og ná fram góðri umræðu í þinginu. Það fylgir þessu heilmikil breyting sem við þurfum öll að vera tilbúin að framkvæma og fylgja eftir.

Ég vil, frú forseti, minna á markmið laganna vegna þess að þeim er ætlað að tryggja heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri og skemmri tíma, vandaðan undirbúning áætlana og lagasetningar er varða efnahag opinberra aðila og öflun og meðferð opinbers fjár, skilvirka og hagkvæma opinbera fjárstjórn og starfsemi, að opinber reikningsskil séu í samræmi við viðurkenndar bókhalds- og reikningsskilareglur og virkt eftirlit með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár, eigna og réttinda.

Það er mikilvægt að minna á þessi markmið. Það er mjög eðlilegt og rauninni nauðsynlegt að við tökum regluverkið til skoðunar eftir að þjóð hefur farið í gegnum efnahagsáfall eins og við gerðum.

Ég vil biðja forseta að kalla á hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra (Fjmrh.: Ég er hérna.) og ég vil að hann hlusti á ræðu mína. (Fjmrh.: Ég er hér.) Það er gott. Ég hélt að hæstv. ráðherra hefði stokkið úr salnum, en svo var ekki.

Það er líka mikilvægt að eigi þessi markmið sem ég taldi upp hérna áðan fram að ganga — ég þreytist ekki á að minna á að það er þverpólitíska sáttin sem tryggir að markmiðin nái fram að ganga. Við þurfum líka að vera sammála um að grunngildin sem undir liggja, sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi, þræði sig í gegnum allar greinar frumvarpsins. Það hefur verið góð samstaða í nefndinni um vinnuna en þar sem hv. fjárlaganefnd hefur oft og tíðum nóg að gera hefði hugsanlega mátt vera með sérnefnd til að fara með þetta frumvarp. Ég nefni það bara hér, en ég mæli ekki með því þar sem ég tel rétt að fjárlaganefnd fái að klára það sem hún var byrjuð á. Við sitjum auðvitað uppi með heilmikla þekkingu og vinnu í málinu.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ræddi um 7. gr. frumvarpsins og 10. gr. þar sem talað er um fjármálareglurnar. Ég vil gera það líka því að hæstv. ráðherra hefur lagt áherslu á þessa grein. Hún er ein af fáum nýjum greinum sem höfðu ekki fengið umfjöllun á síðasta kjörtímabili. Í 7. gr. eru þrír liðir og í 1. lið segir, með leyfi forseta:

„Að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu.“

Þetta merkir, eins og hæstv. ráðherra fór yfir áðan, að þegar áætlun er gerð til fimm ára sé ríkissjóður í plús ef litið er á tímabilið í heild. Við eigum þá fyrir útgjöldum ríkissjóðs og líka vaxtagjöldum á þessu fimm ára tímabili í heild. Þó að við gerum ráð fyrir hallarekstri á fimm ára tímabili þarf summan alltaf að vera í plús. Ég skil það þannig. Við megum samkvæmt reglunni fara í allt að 55 milljarða mínus, eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan, en þurfum ekki aðeins að rétta það af á fimm árum heldur þarf meðaltalið að vera jákvæð niðurstaða. Þá erum við að tala um 110 milljarða. Við munum loka gati á fimm árum sem þá er um 110 milljarðar ef við förum 55 milljarða í mínus og við þurfum að jafna það út þannig að meðaltalið verði plús á fimm árum.

Í 10. gr., eins og hér hefur verið minnt á, er sagt að ef grundvallarforsendur bresta eða fyrirsjáanlegt sé að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla sé heimilt að víkja tímabundið eða í allt að tvö ár frá skilyrðum 7. gr. Þetta ákvæði hafa menn gagnrýnt eins og kom fram í andsvörum áðan.

Í umfjöllun um þessi ákvæði frumvarpsins takast á tvö sjónarmið, annars vegar að það geti verið mjög gagnlegt að nota hallarekstur til að milda efnahagsskelli sem óumflýjanlega eiga sér stað með nokkuð reglulegu millibili. Það sýndi sig vitaskuld mjög skýrt eftir hrun en hið sama á við um smærri áföll. Eftir hrun var ríkissjóður reyndar svo skuldsettur og hallarekstur svo mikill að ríkið gat ekki sett fjármuni í að byggja vegi og brýr eða bæta innviði samfélagsins með öðrum hætti sem hefði mildað áhrif efnahagshrunsins mikið ef það hefði verið mögulegt. En áfallið var af þeirri stærðargráðu að við gátum ekki skuldsett okkur meira. (VigH: Hér varð hrun.) Hv. formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, minnir á að hér hafi orðið hrun sem þarf sennilega ekki að minna okkur á.

Hitt sjónarmiðið er að pólitískur þrýstingur í þá veru að ríkið eyði um efni fram að staðaldri geti leitt til þess að skuldir ríkisins verði of háar og svigrúm til þess að takast á við raunverulega skelli þegar þeir eiga sér stað minna en ákjósanlegt væri. Mér finnst, frú forseti, bæði sjónarmiðin hafa eitthvað til síns máls og við þurfum að taka þá umræðu eins og hæstv. ráðherra hvatti til hér áðan.

Það hefur verið nokkuð góð samstaða um það markmið hér á landi að ná niður skuldum ríkisins. Samstaða var á síðasta kjörtímabili um að stöðva skuldsetningu ríkissjóðs vegna hallareksturs. Alveg síðan um 1990, eða frá þjóðarsátt, hefur íslenska ríkið verið rekið með það að markmiði að skuldir séu að jafnaði lágar. Ríkissjóður var nánast skuldlaus ef litið er á nettóstöðuna þegar allt hrundi.

Eftir hrun var einnig samstaða allra flokka um mikilvægi þess að koma böndum á hallarekstur ríkisins og komast á þann stað að geta farið að greiða niður skuldir og að skuldir ríkisins sem hlutfall af vergri landsframleiðslu færu minnkandi. Þó að menn hafi vissulega greint á um aðferðir við að gera það hefur verið sátt í samfélaginu um að gera þetta með þessum hætti.

Af þessum ástæðum eru ýmsir á móti hugmyndum um að setja fjármálareglur eins og gert er ráð fyrir í 7. gr. frumvarpsins, þ.e. að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt um 2,5% af landsframleiðslu, og telja að þær reglur geti skaðað almannahag vegna niðurskurðarkröfu í velferðarþjónustunni í niðursveiflunum, að reglurnar veiti ríkissjóði ekki nægilegt svigrúm til að takast á við þessar sveiflur með tímabundnum hallarekstri og að reglurnar leysi engan aðkallandi vanda því að almenn sátt sé um að reka ríkissjóð hallalausan ef það er mögulegt vegna stöðu efnahagsmála.

Frú forseti. Við í fjárlaganefnd þurfum að fara betur yfir þessi rök. Ég vil spyrja hér við 1. umr. hvort mögulegt væri að skoða það að gera 1. lið 7. gr. eitthvað rýmri hvað varðar hallarekstur til skemmri tíma þannig að leyfa mætti meiri hallarekstur að hámarki í slæmu ári og gefa lengri tíma til að ná jafnvægi þannig að við stefndum að hallalausum fjárlögum í góðum árum en leyfðum meiri sveigjanleika í verra árferði. Mér finnst að við getum tekið þá umræðu hvort mögulega megi skoða 10. gr. í því sambandi eða við förum í gegnum það hvort það sé möguleiki að ákvæðið í 1. liðnum geti valdið okkur einhverjum búsifjum inn í framtíðina.

Þegar þingi lauk í vor voru ýmsir lausir endar eftir í umfjöllun hv. fjárlaganefndar, helst það að við vorum ekki búin að átta á því nákvæmlega hvernig farið yrði með frumvarpið í gegnum þingið, hvað gerðist á hverjum tíma og hvernig fagnefndirnar tækju á málum. Ég fagna því að nú gefist tími til þess að fara í gegnum það því að það er afar mikilvægt að þingmenn hafi í fingurgómunum í hverju þessi breyting felst, séu sáttir við það og séu þeirrar skoðunar að þetta muni leiða til jákvæðra breytinga.

Ég er þeirrar skoðunar að málið í heild sé mjög jákvætt. Ég hef verið mikil stuðningsmanneskja þess og hef í hv. fjárlaganefnd stundum reynt að passa mig á að vera ekki of jákvæð því að þá er ég hrædd um að meiri hluti nefndarinnar fari í baklás. Ég hef samt nefnt 7. gr. núna sem ég held að sé mikilvægt að við tökum á. Við þurfum að fara í gegnum ferilinn í þinginu og máta yfir á frumvarpið þær breytingartillögur sem nefndin hefur fjallað um og athuga hvernig þær ríma við markmiðin í heild.