145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þegar efnahagsáfall af þeirri stærðargráðu sem bankahrunið var dynur yfir þá dugar ekkert annað en neyðarlög, en við erum ekki eða það er alla vega ekki minn skilningur á frumvarpinu að við séum að hugsa það út frá slíkum áföllum, að þau séu reglan. Það yrðu alltaf teknar úr sambandi einhverjar reglur ef við þyrftum að glíma aftur við svo stórkostlegt vandamál eins og við þurftum að gera eftir efnahagshrunið.

Ég vil bara taka umræðu um þetta. Ég sé ákveðnar hættur í því fyrir sjálfstæði þjóðarinnar að vera jafn skuldsett og við erum í dag. Þess vegna geri ég ekki athugasemdir við 2. og 3. lið sem fjalla meira um skuldsetninguna, því ég held að það sé mjög eðlilegt að þjóð sem er jafn skuldsett og við erum sýni það í lögum um opinber fjármál hvernig við ætlum að vinna á skuldunum. Það getur verið uppi önnur staða í sveiflum sem við munum fara í gegnum, þegar skuldastaðan er orðin betri, þá megi vera meiri sveigjanleiki en gefið er í 1. lið 7. gr. og í 10. gr.

Mig langar til að taka þá umræðu upp við sérfræðinga og að við reynum að svara beint út og með skýrum hætti þessari spurningu: Hvaða vandamál erum við að leysa með þessari reglu? Höfum við verið ósammála um það og hagað okkur þannig að við séum að reka ríkissjóð með miklum halla? Er þessi regla nauðsynleg? Gæti hún valdið okkur einhverjum skaða inn í framtíðina?