145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega sammála því að við megum ekki fara í sömu efnahagsstjórn og var hér fyrir hrun og að peningastefna Seðlabankans fari í eina átt og ríkisfjármálastefnan í aðra. Við vitum alveg hvert það leiddi okkur.

Ég get ekki tekið undir það sem ráðherra segir nema ég sé að misskilja 7. gr. Ég held samt ekki. Við erum búin að fara í gegnum hana m.a. með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og ráðuneytismönnum og hæstv. ráðherra sjálfum. Ef við hefðum verið með þessar reglur þegar við fórum í djúpa dalinn með 200 milljarða halla og við hefðum þurft á sjö árum að ná því að meðaltali í jákvæða stöðu hefði verið svakalega erfitt að gera það með niðurskurði og skattahækkunum. Nægilega erfitt var það að taka þetta saman á fjórum árum bara til þess að ná núllinu.

Í 1. lið 7. gr. er gert ráð fyrir því að við séum í jákvæðri stöðu yfir fimm ára tímabilið, þ.e. ekki að við séum í mínus á fyrsta árinu og svo náum við upp í núll á fimm árum, heldur að við séum í jákvæðri stöðu. Þetta er kannski það sem er átt við með því að þarna megi finna einhvern sveigjanleika. Það er þess vegna sem ég segi líka að frumvarpið er ekki samið til þess að mæta slíkum áföllum og við þurftum að mæta við hrunið, heldur minni sveiflum.