145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[17:54]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru búnar að vera áhugaverðar umræður hérna og ég þakka fyrir framsögn hæstv. ráðherra. Fyrir mér snýr þetta mál í hnotskurn að vönduðum undirbúningi fyrir fjárlagagerðina og betri áætlanagerð, auknum aga og meiri samþættingu opinberra fjármála, og varðar þá kannski fyrst og fremst hagstjórnina.

Ég get sagt það sem ég sagði í haust, mér finnst frumvarpið yfir það heila gott og það er meðal annars vegna þess að margir hafa komið að því að semja það, þess vegna skína í gegn áherslur margra aðila enda er það eina leiðin til þess að ná samstöðu um þetta stóra og mikla mál, ef það á að halda eins og rakið var hér áðan. En það er nú eins og það er, ekki er nóg að setja lög, það þarf hugarfarsbreytingu. Það þarf hugarfarsbreytingu hjá þingmönnum. Það þarf hugarfarsbreytingu hjá stofnunum, í ráðuneytum og víðar. Ég veit ekki hvort allir eru undir það búnir í sjálfu sér. Við höfum auðvitað sett okkur mörg lög og reglugerðir og ekki alltaf farið eftir þeim og enn í dag höfum við ekki staðið okkur nógu vel í því. Hér eru auðvitað hlutir sem okkur greinir á um, en ég tel að við eigum að geta lent þessu vegna þess hversu margir hafa komið að málinu.

Mikið samráð við sveitarfélögin er nauðsynlegt á hverjum tíma af því að við erum jú að færa þangað mörg og stór verkefni. Ríkið hyggst gera meira af því. Við þurfum að ramma það betur inn, við erum ekki alveg nógu vel stödd hvað það varðar, samanber umræðuna sem fór fram í dag um tekjuaukningu til handa sveitarfélögum. Eins og hér var rætt um varðandi 7. gr. og fleira er auðvitað líka verið að setja takmörkun á fjárstjórnarvald sveitarfélaga. Það er ekki hægt að neita því og er auðvitað umhugsunarefni hvort rétt sé að gera það í þeim tilgangi að tryggja stöðugleika í opinberum fjármálum. Ég fer ekkert ofan af því að sveitarfélögin hafa staðið sig betur en ríkið til margra, margra ára, sérstaklega eftir að við innleiddum nýju sveitarstjórnarlögin. En það er auðvitað alltaf svo að formföst og vönduð vinnubrögð minnka líkur á lausatökum og eins og hér kom fram eru grunngildin góð. Það setur sig enginn upp á móti því að reka ríki og sveitarfélög með sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi að leiðarljósi. Það er hins vegar undir okkur komið að framfylgja því. Okkur ber að skoða áfram hverja einustu grein í ljósi þessara gilda.

Ég vil minnast á það og gera það eins oft og ég get að hér er kynjuð hagstjórn formlega sett fram. Það eru auðvitað margir sem skilja ekki hvað átt er við þegar um það er talað, það er líka þannig innan sveitarfélaga, þetta er orðræða sem hefur ekki alveg náð fótfestu og hefur þurft töluverðra útskýringa við þótt um sé að ræða tæki sem hefur áhrif á afkomu okkar allra, karla og kvenna. Við getum nýtt þetta tæki í málaflokkum og horft á þá út frá því hvar jafnvægis er þörf þegar við útdeilum peningum.

Í frumvarpinu kemur fram að leggja beri fram fjármálaáætlun að vori í formi þingsályktunartillögu svo að það gefist meiri tími til að ræða stóru línurnar. Ég tek undir þetta og ég held að það sé bara gott og auki líkurnar á vandaðri umfjöllun ef slík áætlun fær að liggja yfir hásumarið og eykur kannski líkurnar á því að við náum samkomulagi. Ég er svo sem ekkert endilega bjartsýnni en ég var við gerð síðustu fjárlaga og ef maður horfir á fjárlög hvers tíma. Opinber fjármál og ríkisfjármálaáætlun í sjálfu sér er ekkert annað en pólitísk stefnumarkmið, hvort sem það er skattstefna, tekjuöflun eða útgjaldaþróun eða hvað það nú er eftir málasviðum. Þar liggur pólitíkin. Við megum ekki alveg gleyma okkur og halda að þetta leysi allt. Mér hefur fundist orðræðan stundum vera þannig þó að flestir séu sáttir við hvernig eigi að halda utan um þetta.

Hér hefur töluvert verið rætt um 7. gr. og skilyrði fyrir heildarafkomunni sem á að vera jákvæð og árlegur halli ekki meira en 2,5% af landsframleiðslu. Þetta eru háleit markmið, þau eru ágæt en háleit. Skuldirnar mega ekki fara yfir 30% af vergri landsframleiðslu, þ.e. allar skuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum, viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og innstæðum í bönkum. Ég held að þetta sé áskorunin í frumvarpinu. En það er líka ástæða til að velta því fyrir sér hvaða aðstæður það eru sem kalla á að íslenska ríkið þurfi að hafa stífari reglur en önnur ríki. Mig minnir að hæstv. fjármálaráðherra hafi sagt áðan að þetta væru í kringum 55 milljarðar, þ.e. sem við mættum skuldsetja okkur. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvað við þyrftum að greiða niður á ári til þess að ná viðmiðum um skuldaþakið. Ég man að sú tala var 17 milljarðar held ég síðast, fyrir utan vaxtakostnað, bara svona til að þær tölur fari í loftið.

Ég get tekið undir það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði hér áðan. Það er auðvitað eitt að setja svona lög og reglugerðir, en það er líka til hjáleið sem felst m.a. í því að setja hluti í einkaframkvæmdir til þess að komast hjá skuldsetningu. Þess vegna segi ég það, það leysir ekki allt að setja lög.

Hér hefur verið talað töluvert um sveiflujöfnun og að þessi regla ætti að geta þjónað því hlutverki og hvort svigrúmið eigi að vera meira eða minna, hvort það eigi að vera hægt að beita því í báðar áttir eða ekki. Eins og kom líka fram áðan þá hefur okkur ekki tekist, t.d. í góðærinu svokallaða, að safna í sjóði og eiga eitthvað til þegar kemur að því að áföllin dynja yfir, því þau gerast alltaf, en vissulega með mismunandi hætti. Ég held að við getum alltaf náð samstöðu um það, þótt við viljum ekki endilega fara nákvæmlega sömu leiðir til þess, að beita ríkinu í þá átt þegar erfitt er, hvort sem það er með því að skapa ný störf eða leggja vegi eða hvað það nú er, eins og við gerðum á síðasta kjörtímabili þrátt fyrir allt. Það er kannski bara þrýstingurinn utan úr samfélaginu sem sér um að halda utan um pólitíkina þá. En þetta, að safna til mögru áranna til þess að hægt sé að beita sér gegn þenslu og jafnvægisleysi í fjármálum, heyrist mér vera eitt af stóru málunum í þessu. Það kemur inn eftir á. Það var ekki í fyrri tillögum á síðasta kjörtímabili og eins og hæstv. ráðherra sagði áðan þá var það hugðarefni hans að koma því í þetta frumvarp.

Ég ætla aðeins að ræða um fjármálaráðið. Mér finnst að þar gæti gætt ójafnvægis ef þingið í krafti meiri hluta getur ákveðið að einungis meiri hlutinn komi að slíku ráði. Það er bara sagt að Alþingi tilnefni tvo menn en ekki sagt með hvaða hætti, hvernig tillögurnar geti borið að. Það er talað um hæfi. Við ræddum þetta mikið í fjárlaganefnd. Við komum með breytingartillögu sem ráðherrann ákvað að nota ekki. Mér fyndist það skipta miklu máli að hafa fjármálaráð sem væri ekki pólitískt skipað eða alla vega eins lítið pólitískt skipað og hægt væri. Ég tel að það hefði mun meiri vigt, mun meiri trúverðugleika úti í samfélaginu heldur en að gera þetta eins og hér er lagt óbreytt til. OECD gerði skýrslu um fjármálaráð í sex löndum, hvaða áskorunum fjármálaráð þyrfti að standa frammi fyrir varðandi sjálfstæði þannig að stjórnvöld geti ekki hunsað athugasemdir ráðsins. Ef fjármálaráð á að virka sem agatæki og geta gert raunverulegar athugasemdir þá þarf það að vera algjörlega sjálfstætt og þora að gagnrýna stjórnvöld ef þess gerist þörf.

Á bls. 34 og 35 er fjallað um fjárheimildir þar sem gert er ráð fyrir að ráðherra skilgreini málefnasvið og málefnaflokka að undangengnu samráði við ráðherra að fengnu áliti reikningsskilaráðs. Hluti af markmiðinu með því er að þeir sem gegna þessu hlutverki eigi að halda útgjöldum innan fjárheimilda og fái auknar heimildir til að stýra útgjöldunum innan málaflokka og þeim aðilum verði þar af leiðandi falin aukin ábyrgð. Þetta er líka hluti af því sem við höfum verið að ræða, þ.e. að ráðherra fái, eins og hér er tekið fram, auknar heimildir til að stýra útgjöldum innan sinna málaflokka. Eitt af því sem við þingmenn stöndum þá frammi fyrir er hversu miklu valdi við erum að afsala. Að sjálfsögðu, eins og kemur fram í III. kafla, eru fjárlögin lög og fjárveitingavaldið er hjá Alþingi og nefnt er að við þurfum að vera sannfærð um að þetta uppfylli ákvæði stjórnarskrárinnar, en aðkoma Alþingis breytist töluvert. Við erum kannski meira með áætlanagerðina eða að skoða heildarmyndina, en minna í því að standa í afgreiðslu á ákvörðunum á einstökum fjárveitingum. Það eru bæði kostir og gallar í því, en ég hef áhyggjur af því að þingmenn og sérstaklega stjórnarandstaðan verði svolítið vopnlaus.

Það var því ánægjulegt að heyra hæstv. ráðherra taka undir það sem hér var rætt að það þyrfti að styrkja fjármálaskrifstofuna á þinginu, og ef það verður niðurstaðan þarf jafnvel að leggja fram nánast nýtt frumvarp, það er alla vega skilningur sumra í fjárlaganefnd, að það geti þurft ef vel á að vera, ekki bara tillögu um tiltekið málefnasvið. Við þurfum að fara vel yfir það hvort það gengur stjórnskipulega og hversu langt á að ganga. Mér finnst það ekki alveg liggja fyrir með framsalið á fjárveitingavaldinu. Þar erum við auðvitað að tala um að fylgiritið er undir málaefnasviðum, það verður ekki lögskýringargagn. Ég er ekki alveg sátt við það og mér finnst ég ekki hafa fengið staðfest að það sé í lagi.

Það komu upp vangaveltur með þingsköpin. Við höfum rætt töluvert við ráðuneytið um að fá nánast leikþátt í fjárlaganefndinni til þess að við getum farið í gegnum það hvernig breytingartillögum verði háttað. Mér heyrist vera tekið vel í það. Ég tel að það sé næsta skref, ef við ætlum okkur að ná í einhverja sannfæringu og breiðari samstöðu þá verðum við að gera það.

Tími minn er á þrotum, en ég vil nefna 20. gr., um stefnumótun fyrir málefnasvið. Þar er talað um að leggja skuli sérstaka áherslu á að skilgreina gæða- og þjónustumarkmið þess sem veita á fjármuni til og hvernig eigi að ná markmiðum og það þurfi að vera skýrir árangursmælikvarðar. Það er hluti af stefnumótuninni. En ef þetta fer allt saman fram innan ráðuneytisins og innan málaflokkanna og við almennir þingmenn komum lítið að þessu, ef ég skil þetta rétt, er enn þá mikilvægara en áður að þessi fjármálaskrifstofa verði öflugri. Þótt við höfum, eins og hér kom fram, tvo afskaplega duglega ritara þá dugar það engan veginn fyrir heila stjórnarandstöðu.

Ég veit það líka að við getum ekki bæði sleppt og haldið. Við þingmenn höldum áfram að berjast fyrir okkar málum, hvort sem það er í kjördæmunum eða málaflokkunum eða hvað það nú er. En það sem við höfum getað gert hingað til, ef við viljum auka framlög til tiltekinnar stofnunar eða eitthvað annað, getum við ekki gert lengur. Við getum einungis komið því á framfæri í ræðu, við getum vissulega lagt til breytingar innan sviðsins eða málaflokksins, og við verðum að treysta því að framlagið verði brotið niður á það sem viðkomandi þingmaður óskar eftir eða leggur til. Það getur vel verið að það stuðli ekki að góðum aga að hafa það þannig áfram af því það er jú alltaf auknar tilfærslur í því fólgnar.

Fjármálaráðherra á að upplýsa fjárlaganefnd um stöðu og framvindu fjármálaáætlunar og aðrir ráðherrar. Það hefur að mörgu leyti verið gert án þess að það hafi verið í lögum, en það er mjög skynsamlegt að færa það í lög. Ég velti því fyrir mér ef fjármálaráðherra telur að hann fái ekki viðunandi áætlanir frá ráðuneytum, frá öðrum málaráðherrum, hvort hann hafi einhver úrræði önnur en að segja bara að þetta gangi ekki, hvort það þurfi að skerpa frekar á því. Þetta er ein af þeim hugmyndum sem kom fram í vinnunni í fjárlaganefnd.