145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:28]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er rétt og satt, en það liggur líka fyrir að Maastricht-skilyrðin hafa verið mjög harðlega gagnrýnd, annars vegar fyrir það að farið hefur verið fram hjá þeim, menn hafa fundið hjáleiðir; við getum nefnt Grikkland sem dæmi um nákvæmlega það. En þau hafa líka verið harðlega gagnrýnd af þeim sem aðhyllast dýpri samruna innan Evrópusambandsins fyrir það að vera ekki nægjanleg til þess að geta staðið undir sameiginlegri efnahagsstefnu; að það þurfi að ganga lengra, það þurfi að taka upp sameiginlega ríkisfjármálastefnu, sameiginlega skattstefnu.

Ég var til dæmis að lesa grein eftir William Buiter hagfræðing sem sagði nákvæmlega þetta: Þessi skilyrði duga ekki til, þau þarf að endurskoða. Það er auðvitað annað mál, eðlisólíkt, að þjóðir setji sér sín eigin skilyrði. Ég er alveg sammála hæstv. ráðherra um það. Það er spurning sem við þurfum að spyrja okkur hvort við treystum okkur ekki til þess að setja okkur einhver skilyrði.

En við skulum líka vera meðvituð um það að Maastricht-skilyrðin hafa svo sannarlega sína galla og þau eru gagnrýnd úr báðum áttum. Þau eru gagnrýnd af þeim sem gagnrýna of mikinn samruna í Evrópu, fyrir að hafa reynst tól sem er fyrst og fremst á yfirborðinu og virkar ekki sem skyldi. Þau hafa líka verið gagnrýnd af þeim sem vilja meiri samruna fyrir að vera einmitt tól sem virkar bara á yfirborðinu og það þurfi að setja harðari samræmingarreglur. Það er nú kannski önnur umræða og áhugaverð.

Þegar við skoðum ríki Evrópusambandsins þá hafa ansi mörg þeirra ekki náð að uppfylla Maastricht-skilyrðin eða fundið sér einhverjar hjáleiðir. Stóra málið er hvort við teljum raunhæft að ná þeim skilyrðum sem eru lögð til í frumvarpi hæstv. ráðherra, ef við skoðum efnahag okkar og hagkerfi. Þó að ég eigi auðvitað ekki að fara í andsvar við hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) undir þessum lið, þá held ég að það sé kannski það sem er áhugavert fyrir okkur ef við erum að horfa til lengri tíma hversu (Forseti hringir.) raunhæft við teljum að við munum ná þeim markmiðum sem þarna eru sett fram.