145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Þegar Evrópusambandið sá fram á það að Maastricht-skilyrðin dygðu ekki þá var verið að skerpa á þeim með sáttmálanum um stöðugleika, samhæfingu og stjórnun í efnahags- og myntbandalaginu. Það er alveg rétt að þetta hefur verið gagnrýnt. En sú umræða tengist að verulegu leyti sameiginlegu myntinni sem við erum, sem betur fer segi ég, ekki aðilar að á þessum tímapunkti. Ég er bara að nefna þetta til merkis um það hversu langt einstök þjóðríki eru tilbúin til að ganga til þess að ná markmiðinu um stöðugleika og heilbrigðan skynsamlegan rekstur á þeirri mynt sem viðkomandi þjóðríki ætlar að tilheyra.

Hér erum við með krónuna. Ég tel að við þurfum að gera betur. Það sem hefur skort er meiri samhæfing opinberu fjármálanna, þ.e. ríkisfjármálanna, við það sem er að gerast á sveitarstjórnarstiginu. Við erum að reyna að ná utan um það hér. Við erum að reyna að tryggja að með skýrum tölusettum markmiðum muni þingið geta vísað til þeirra þegar framkvæmdarvaldið ætlar að skapa sér svigrúm eða skapa sér nýjan þægindaramma með vísun í einhver almenn markmið; þetta verður hugsanlega í lagi, þrátt fyrir að útreikningarnir segi kannski eitthvað annað. Ég segi bara: Tölusett markmið eru miklu betra hald í slíkri umræðu en almennar markmiðsyfirlýsingar.

Ég tel að þeir prófessorar sem hv. þingmaður vísaði til og hafa haft efasemdir um þessi tölusettu markmið í 7. gr., hafi alls ekki tekið tillit til þess sem segir í 10. gr. Þar er akkúrat skapað það svigrúm sem augljóslega þarf að vera til staðar.

Svo skulum við líka gera okkur grein fyrir því að sama lögmál mun gilda hér og hefur gilt hjá evruríkjunum og hefur komið fram í framkvæmd Maastricht-skilyrðanna og þeirra reglna sem síðar hafa verið settar. Þegar allt kemur til alls þá gerist (Forseti hringir.) í sjálfu sér ekkert ef menn brjóta þessar reglur. Þetta mun á endanum snúast um vilja þingsins og aðhald þingsins með framkvæmdarvaldinu (Forseti hringir.) til þess að ná þessu. Það fer enginn í fangelsi ef reglurnar eru brotnar. Þetta snýst um að skapa sameiginlegar reglur, sameiginleg viðmið og skapa aðhald í umræðunni.