145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra andsvarið. Hann kom inn á mikilvægt atriði sem er það að stundum þegar við erum að ræða umgjörð fjármálakerfisins og hagkerfisins þá tölum við eins og við séum að eiga við einhvers konar náttúrulögmál, en auðvitað er þetta mannanna verk og mannanna vilji á bak við það og auðvitað er það þingsins að ráða ráðum sínum á hverjum tíma um þau markmið sem eru sett.

Það er mjög mikilvægt atriði sem hæstv. ráðherra kemur inn á hér. Hann bendir á 10. gr. þar sem rætt er um grundvallarforsendubrest sem kannski ætti við það sem ég var að vísa til áðan þegar allt hrundi hér 2008, að þá sé heimilt að víkja tímabundið í allt að tvö ár frá skilyrðum 7. gr. Líklega hefðum við nú samt ekki náð því að nýta þann frest, en auðvitað er þetta, eins og hæstv. ráðherra og ég erum sammála um, mannanna verk. Við eigum að horfa á það sem slíkt.

Ég tel mikilvægt að skoða söguna. Við vitum að hún er sveiflukennd í íslensku efnahagslífi og í íslenskum ríkisfjármálum. Horfum bara á útgjaldaaukninguna sem varð hér árið 2007 svo dæmi sé tekið. Hún var ansi stór og mikil og enginn veit nákvæmlega í hvað hún átti að fara.

Mér finnst ágætt að við ræðum þessi markmið. Mér finnst líka mikilvægt, ég held að það sé mikilvægt fyrir umræðuna, að við höfum þessa sögulegu yfirsýn til þess að við getum betur áttað okkur á því hvernig þetta hefur litið út og mátað það við þessi markmið. Ég held það væri gott fyrir þessa umræðu, kannski af því að ég er áhugamaður um sögu, að horfa til sögunnar, ég held það sé ótvírætt hægt að læra af sögunni og ég held að það sé mikilvægt þegar við erum að setja okkur markmið til framtíðar að við horfum líka aftur í tímann og getum metið það, ekki bara út frá sérkennilegum aðstæðum eins og hér hafa verið undanfarin ár, frá hruni getum við sagt, heldur lengra aftur í tímann.

Ég held líka að það sé mikilvægt að taka þessa umræðu (Forseti hringir.) út frá hlutverki fjármálaráðsins. Ég vil ítreka það að ég held að mikilvægt sé að við ræðum aðeins hvert hlutverk (Forseti hringir.) þess nákvæmlega verður og hvort það hafi, því að það er bara þriggja manna ráð, herra forseti, (Forseti hringir.) nægjanlegar forsendur til þess að sinna því umfangsmikla hlutverki sem hér þarf.