145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[18:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Hér hefur farið fram hin ágætasta umræða um þetta mál enda verðskuldar það svo sannarlega að vera rætt. Það má kallast með stærri og mikilvægari málum sem við fjöllum almennt um á þingi þegar undir er sameiginlegur rammi um öll hin opinberu fjármál, bæði ríkis og sveitarfélaga.

Hér ræddu menn nokkuð um að læra af sögunni og eitt af því sem ég tel ágætt við þetta frumvarp er greinargerðin með því sem ég hef verið að lesa núna og hafði næði til að lesa mér til nokkurrar ánægju. Þar er aðdragandinn ágætlega rakinn og þetta sett í samhengi við þau tímamót sem urðu með fjárreiðulögunum á sínum tíma 1997. Ég ætla ekki að mótmæla því að þau voru mikil tímamót frá ástandinu sem ríkti þar á undan þegar ákvæði um þetta voru mjög brotakennd og engin heildstæð löggjöf til. En við skulum líka muna að þessi fjárreiðulög voru ekkert mjög gömul þegar við fórum að fara út af sporinu, þau dugðu ekki til, ágæt sem þau voru frá 1997, þegar menn fóru að keyra út af strax á árunum 2002, 2004 með alvarlegum afleiðingum.

Ekki síður finnst mér röksemdafærslan hér vera áhugaverð. Ef menn bera niður á bls. 23 og áfram í kaflanum um þátt opinberra fjármála í efnahagsumhverfinu þá er hann nokkuð fróðleg lesning. Nú er ég ekki hagfræðingur að sjálfsögðu, ég er bara aumur jarðfræðingur og pedagóg og fyrrverandi vörubílstjóri, en miðað við það sem ég hef þó hnusað af þessum málum mundi ég segja að það benti mjög sterklega til þess að menn nokkuð hallir undir Keynes gamla hefðu skrifað þarna býsna langa kafla. Það er til dæmis prýðilega orðað hér að yfirleitt sé litið svo á, með leyfi forseta, „að sökum stærðar sinnar og mikilvægis beri ríkisvaldinu að hafa í huga efnahagsleg áhrif umsvifa sinna þegar teknar eru ákvarðanir í ríkisfjármálum. Það felur í sér að ríkið rifi seglin þegar þensla er í hagkerfinu en þenji seglin þegar ládeyða er í efnahagslífinu.“ Hver gæti nú hafa skrifað þetta?

Víðar er fjallað með þessum hætti, líka sögulega séð, um að peningamálastefnan hafi að sjálfsögðu áhrif og sé ætlað að bíta gagnvart því að finna jafnvægið og ef þetta virkar allt saman, eftirspurn í lánakerfinu og miðlunarferli, geti Seðlabankinn svolítið jústerað þetta með sínum ákvörðunum. En á mikilvægi þess að fjármálastefna hins opinbera og peningamálastefnan stuðli saman að því markmiði að halda verðlagi stöðugu, verði ekki lögð of lítil áhersla, þ.e. á þetta svokallaða „policy mix“. Þannig sé fyrst og fremst hægt að koma í veg fyrir skaðlegt ósamræmi við hagstjórnina.

Ég er sammála því sem fjármálaráðherra talaði hér um að hluti veikleikanna hjá okkur var sá að menn litu ekki yfir hin opinberu fjármál í heild. Þegar svo er komið að sveitarfélögin eða sveitarstjórnarstigið er með upp undir einn þriðja af hinum opinberu umsvifum, þá er náttúrlega mikið hol í samræminu ef þau eru á einhverju allt öðru spori en ríkið, ég tala nú ekki um ef þetta fer í þrjár áttir. Seðlabankinn er að reyna eitt, ríkið annað og sveitarfélögin það þriðja, eða hvernig sem það nú er. Ég tel að nú þegar hafi náðst árangur með nýjum fjármálareglum fyrir sveitarfélögin, en hér er í raun og veru verið að klára verkið með því að ná utan um þetta í heild.

Svo er hér farið afar heiðarlega að mínu mati yfir það hversu mislagðar hendur okkur Íslendingum hafa í raun verið í þessum efnum. Þá hljóta meðal annars forustumenn flokka sem lengi hafa verið við stjórnun á Íslandi, í hálfan lýðveldistímann eða tvo þriðju af honum, að líta í eigin barm. Þetta er ekkert sérstaklega falleg lýsing, hæstv. fjármálaráðherra, en ég held að hún sé raunsönn. Þar stendur til dæmis, með leyfi forseta:

„Hér á landi hefur opinberum fjármálum ekki verið beitt með nægilega markvissum hætti sem sveiflujafnandi hagstjórnartæki og má jafnvel finna dæmi um að fjármálastefna hins opinbera hafi beinlínis haft þensluaukandi áhrif þegar síst skyldi.“ — Já, það þarf ekki að fara langt aftur.

Frekar segir hér:

„Ef hagstjórnaraðgerðir í peningamálum og ríkisfjármálum eru ekki samhæfðar koma ruðningsáhrifin fram í þrýstingi á launastigið og í háu vaxtastigi sem ýta fjárfestingu til hliðar. Áhrifin eru hálfu verri í litlu opnu hagkerfi þar sem hærri vextir geta leitt til gengisstyrkingar sem veikir samkeppnisstöðu útflutnings ásamt því að hvetja til innflutnings. Ruðningsáhrifin draga því úr vaxtargetu hagkerfisins til meðallangs tíma og valda því að niðursveiflur verða óhjákvæmilega mun dýpri í kjölfarið þar sem töluverðan tíma tekur að koma fjárfestingu aftur á skrið. Í besta falli getur ósamhæfð ríkisfjármálastefna orðið til þess að Seðlabankinn verður að beita kröftugri vaxtastýringu en ella til þess að halda hagkerfinu í jafnvægi. Háir vextir íþyngja atvinnulífinu eins og kunnugt er, en almennt séð valda miklar vaxtabreytingar fyrirtækjum erfiðleikum vegna óvissu sem virkar hamlandi á fjárfestingar. Í versta falli getur taktlaus ríkisfjármálastefna komið í veg fyrir að Seðlabankinn nái verðbólgumarkmiði sínu með þeim afleiðingum að háir vextir og mikil verðbólga fari saman líkt og raunin hefur verið hérlendis.“

Svo segir í lok þessarar málsgreinar, með leyfi forseta:

„Ljóst er að ríkisfjármálastefna hér á landi hefur um langt árabil verið úr takti bæði við gang hagsveiflunnar og aðgerðir Seðlabankans.“

Þetta er nú nokkuð mikið sagt. Það er sagt berum orðum að ríkisfjármálastefnan hér á landi hafi um langt árabil verið úr takti, bæði við gang hagsveiflunnar og aðgerðir Seðlabankans. Ég les ekki út úr þessu umfjöllun um tímann frá og með hruni heldur fyrst og fremst árin þar á undan og langt aftur til baka litið og tek undir þessi orð.

Þá ætla ég að fara í 7. gr. með þessum inngangi því hann skiptir hér máli. Hér var ágætisumræða um það hvort við ættum að lögbinda tölusett markmið eða ramma eða hvort við ættum að láta okkur nægja að vinna samkvæmt slíkum yfirlýstum markmiðum og mótaðri stefnu og hafa eftirlit með því að því væri fylgt, láta jafnvel óháða aðila annast um það. Hér erum við komin mjög nálægt kjarna málsins og snýr allt að okkur sjálfum, þar á meðal líka reynslu okkar af okkur sjálfum.

Ég vil segja um afstöðu mína til markmiðanna í 7. gr. að hagfræðingurinn í mér, sem þó er enginn samanber það sem áður kom fram, og það litla sem ég veit um þetta mundi gera mig tregan til að samþykkja svona stífan ramma vegna þess að ég efast um að tímabilið sem hér er afmarkað og hlutfallið sem þarna er sett inn, fimm ár, 2,5% í hámark í halla, standi undir því sem síðan er í greinargerð frumvarpsins sagt um mikilvægi þess að beita hinum opinberu fjármálum til að jafna hagsveifluna. Svigrúmið er mjög þröngt til þess að gera það ef ramminn er þetta stífur og bundinn í lög. Við getum bara hugsað okkur sem dæmi ef ríkissjóður er nú kominn í verulega góða stöðu, hann er skuldlaus og menn eiga jafnvel í sjóðum. Síðan kemur af innri eða ytri ástæðum eða samblöndu af þessu tvennu, erfiðleikatími í hagkerfinu, hægagangur og menn eru jafnvel orðnir hræddir við verðhjöðnun og hvaðeina. Segjum bara að það hafi farið saman óáran, léleg aflabrögð og verðfall á útflutningsafurðum og á okkar helstu viðskiptamörkuðum og þungt fyrir fæti. En ríkissjóður stendur mjög vel. Hvað gætu menn gert til að verja samfélagið og koma hlutunum í gang? Menn gætu beitt ríkissjóði og rekið hann með halla í einhver ár. Menn gætu jafnvel lækkað skatta til þess að örva efnahagslífið, farið þá leið ef þeir hefðu trú á slíkum tækjum, eða hreinlega ráðist í fjárfestingar, í „stimúlus“, og ríkissjóður hefði ráð á því. En svigrúmið er mjög þröngt miðað við 7. gr.

Hins vegar segir stjórnmálamaðurinn í mér sem búinn er að fylgjast með þessu í ein 35 ár að sennileg þurfum við á svona lögbundnum ramma að halda, því okkur hefur gengið svo illa að hafa aga á okkur sjálfum. Kannski verðum við bara að hýða okkur með því að hafa í lögum ramma sem við erum bundin af þannig að við þurfum þá að minnsta kosti að hafa fyrir því að fara út fyrir hann.

Eftir sem áður tel ég þetta vera eitt vandasamasta atriðið við að lenda þessu máli. Að uppistöðu til er ég ánægður með þetta frumvarp og þá vinnu sem á bak við liggur. En ég tel að 7. gr. og 10. gr. þurfi að skoða og skoða betur saman. Hæstv. fjármálaráðherra vísar á 10. gr. í þessu og það er rétt, hún er einhvers konar ventill. Það er hægt að fara þarna út úr rammanum. En við hvaða aðstæður? Jú, um það segir í 10. gr., með leyfi forseta:

„Ef grundvallarforsendur fjármálastefnu bresta eða fyrirsjáanlegt er að þær muni bresta vegna efnahagsáfalla, þjóðarvár eða annarra aðstæðna …“

Þetta er force majeure-ákvæði. Það þurfa einhver ósköp að ganga á til þess að menn geti réttlætt það að beita þessu ákvæði. Ég held að það sé of þröngt skilgreint. Ég gæti miklu frekar sætt mig við 7. gr. eins og hún er óbreytt ef 10. gr. væri rýmkuð þannig að það þyrftu ekki endilega að hafa orðið einhverjar stórfelldar náttúruhamfarir eða hamfarir af mannavöldum, heldur væri um að ræða mjög sterkar efnahagslegar forsendur sem þannig hefðu þróast að það væri bara beinlínis skynsamlegt, samfélagslega og efnahagslega skynsamlegt að fjármálaráðherra kæmi inn á grundvelli 10. gr. og segði: Nú legg ég til að við losum okkur aðeins út úr þessu tímabundið, stækkum eða rýmkum svigrúmið sem við höfum, nýtum okkur sjö ár en ekki fimm ár til þess að vinna gegn hagsveiflunni o.s.frv. Þá má það heldur ekki vera þannig að beiting ákvæðisins sé bundin við einhverjar ægilegar hamfarir. En þetta geta menn skoðað betur í hv. nefnd.

Mig langar að spyrja um 11. gr., um samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga, sem er gríðarlega mikilvæg. Er þarna verið að boða að ganga lengra í því að grundvalla tekjusamskiptin á árlegum samningaviðræðum ríkis og sveitarfélaga? Þarna er talað um að ráðherra skuli við mótun fjármálaáætlunar leita samkomulags við Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd þeirra áður en áætlun er lögð fyrir Alþingi þar sem m.a. er fjallað um markmið og afkomu sveitarfélaganna og eins og segir í 3. tölulið um fjármögnun opinberrar þjónustu og tekjur sveitarfélaga. Er hugsunin á bak við þessa grein að fara í áttina að eða alla leið yfir í danska fyrirkomulagið, að menn semji í raun og veru árlega um þessi samskipti? Það var ágæt umræða hér utan dagskrár um þetta í dag sem ég fylgdist með.

Þá óska ég auðvitað núverandi fjármálaráðherra til hamingju með það sem hann á í vændum meðan hann er í því embætti, því danski fjármálaráðherrann gerir ekkert annað allan júnímánuð en að standa í slíkum samningaviðræðum við sveitarfélögin. Þannig hafa þeir farið að. Þeir semja árlega um þessi fjármálalegu samskipti. Það eru harðar viðræður milli ríkis, fylkja eða amta og sveitarfélaga.

Þetta skiptir máli finnst mér því þarna hefur ein brotalömin verið. Það var til dæmis alkul í samskiptum sveitarfélaganna og ríkisins fram að hruni og kaldar kveðjur yfirleitt sem fjármálaráðherra þess tíma fékk á ársfundum sveitarfélaga, sem þeir vita sem þá sóttu.

Mig langar að gera fjármálaráðið örstutt að umræðuefni. Um leið og það er mikilvægt og ég er ekki að leggjast gegn því að slíkt ráð sé þá hef ég efasemdir um að hafa það svona þröngt skipað af aðeins þremur mönnum og þar af séu tveir tilnefndir í þrjú ár samtímis og svo formaðurinn í fimm ár. Ég hefði velt því fyrir mér að hafa þetta fimm manna ráð eða eitthvað svoleiðis og skipa tvo í upphafinu til þriggja ára, aðra tvo til fjögurra ára eða fimm ára og formanninn í einhver X ár. Þá samanstæði ráðið alltaf af einhverjum sem hefðu verið þar í nokkur ár og öðrum sem væru að koma inn. Það er mjög mikilvægt að hafa það óháð, hafa festu í því og að það sé eitthvert framhald í starfseminni. Ég held að það sé ekki gott að tveir af þremur ráðsmönnum detti út eftir kannski þrjú ár og nýir tveir komi inn vegna þess að ákvæðið er líka um að enginn geti setið lengur en tvisvar í röð, sem í sjálfu sér er ágætt, þetta á ekki að verða eitthvert fast batterí.

Það er ýmislegt fleira hér sem ég vildi nefna svo sem eins og mat á útgjaldahorfum til lengri tíma í 33. gr., samanber líka 9. gr. um horfur og þróun til lengri tíma sem ég fagna og á tvímælalaust erindi inn í þetta frumvarp. Ég minni á í þessu sambandi tillögu til þingsályktunar um undirbúning að gerð þjóðhagsáætlana til langs tíma. Ég tel að það eigi að botna það mál með því að samþykkja að hluti af þessari langtímasýn sé slík vönduð þjóðhagsáætlanagerð til langs tíma. Það sé ekki nóg að vísa bara í að menn eigi að leggja á þriggja ára fresti eitthvað fram þar sem rýnt er aðeins í samfélags-, atvinnu- og umhverfisþætti og lýðfræðilega þætti. Samkvæmt 33. gr. eiga ráðuneytin hvert fyrir sig að annast um slíka áætlanagerð í sínum ráðuneytum, en það á enginn að safna þessu öllu saman og horfa lengra fram í tímann og taka fleiri breytur með eins og auðlindir, styrkleika og veikleika landsins o.s.frv. Ég hefði gjarnan viljað að menn kíktu á það í leiðinni að taka þetta lengra með því að ákveða að fara í slíka vandaða áætlanagerð.

Það er fjallað um eigendastefnuna í 44. gr. og þar er ég svolítið ráðvilltur eftir að hafa lesið síðustu málsgreinina um það (Forseti hringir.) hvernig til standi í framtíðinni að (Forseti hringir.) ráðherra tilnefni í stjórnir og ráð. Það er hvergi minnst þar á valnefndir eða aðra slíka óháða aðila og spyr hæstv. ráðherra: Er það ekki inni í myndinni að ganga bara frá því (Forseti hringir.) að einhver slíkur viðurkenndur prósess verði viðhafður?