145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[19:10]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig alveg rétt hjá hv. þingmanni að það er ástæða til að skoða 6. gr. líka í samhengi við þetta, þ.e. grunngildin, en þau eru nú svo fallega orðuð; sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi, þetta er allt svo prýðilegt að ég er væntanlega inni á því. En það skiptir að sjálfsögðu máli á hvaða gildum menn ætla að byggja. Ég hefði kannski viljað hafa þarna eitthvað sem vísaði með skýrum hætti, þannig að það misskildist ekki, til ábyrgðar gagnvart framtíðinni. Auðvitað gerir sjálfbærnin það, alla vega ef menn leggja umhverfislega skilninginn í það, þá þýðir það að þú mátt ekki ganga á rétt komandi kynslóða, þetta á að vera sjálfbært í þeim skilningi.

Um 7. og 10. gr. að öðru leyti get ég ekki bætt miklu við. Ég get prófað að orða það þannig að reynslan og til baka litið hljótum við eiginlega að komast að þeirri niðurstöðu að við hefðum betur haft einhvern svona aga á okkur. Við hljótum að minnsta kosti að binda vonir við að þá hefði mönnum á köflum ekki verið svona svakalega mislagðar hendur, ef þeir hefðu haft skýrar fjármálareglur, ef það hefðu verið viðmið og það hefði sést að menn voru að fara út af og menn hefðu neyðst til að koma til þingsins og viðurkenna að þetta væri allt farið í vaskinn. Það finnst mér mæla dálítið með rammanum.

Áhyggjur mínar af honum eru hins vegar tvenns konar. Ég kom öðru að áðan, það er hagstjórnarlegs eðlis. Ég er ekki viss um að við getum í svona þröngu svigrúmi beitt til fulls möguleikum opinberra fjármála til sveiflujöfnunar í hagkerfinu til góðs fyrir samfélagið. Hinar áhyggjurnar eru pólitískar. Auðvitað geta menn ef þeir svo vilja skýlt sér á bak við þessa ramma til að reka meiri niðurskurðar- eða þrengslapólitík, ef þeir eru þannig innrættir, þannig sinnaðir í stjórnmálum. Ég get ekkert neitað því að ég hef áhyggjur (Forseti hringir.) af þessum römmum ef harðsvíraðir niðurskurðarmenn og nýfrjálshyggjumenn væru komnir með þetta tæki í hendur (Forseti hringir.) til þess að afsaka það að skera niður o.s.frv., menn sem t.d. ekki vildu afla tekna.