145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:17]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða ræðu. Það er alltaf gaman þegar við ræðum hérna mál sem virðast í meginatriðum óumdeild að heyra frá einhverjum sem er ekki jafn sáttur við málið og kannski flestir aðrir sem hafa talað þann daginn. En mig langar gjarnan að fá að vita hvort hv. þingmaður sé hlynntur málinu eða ekki eins og það birtist hv. þingmanni nú. Það er fyrsta spurningin.

Einnig langar mig að spyrja hv. þingmann um 7. gr. og skilyrði hennar. Hv. þingmaður veltir réttilega upp ákveðnum möguleikum sem eru að svo þröng skilyrði neyði menn út í einhvers konar kerfisbreytingar sem þeir mundu kannski annars ekki fara út í eða ættu öllu heldur erfiðara með að réttlæta út frá samfélagslegum gildum eins og hv. þingmaður fór svo vel yfir.

Ég velti fyrir mér hvort ekki væri nær, frekar en slaka á þessum skilyrðum, að búa til einhvers konar viðbragðsáætlun meðfram góðærum og þegar vel gengur í hagkerfinu til að takast á við skakkaföll þá og þegar þau gerast og auðvitað gerast þau af og til. Ég spyr vegna þess að hér hefur borið á góma hinn gamla og góða Keynes og ég veit ekki hvar hv. þingmaður stendur gagnvart hans frægustu kenningum og tilgátum en ef hugmyndin er sú að við þurfum að geta aukið svigrúm ríkisins á erfiðum tímum, er það ekki frekar eitthvað sem við ættum að byggja upp þegar vel árar frekar en að gera ráð fyrir því að við þurfum að fara í ofurskuldsetningu þegar illa fer?