145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fína yfirferð yfir sjónarmið hans hér. Mér finnst mikilvægt að það komi fram ólík sjónarmið um kosti og galla þessa frumvarps og einstakra greina þess. Hér hefur sjónum einkum verið beint að 7. og 10. gr. og rifjað upp hvernig sveitarfélögunum hafa verið settar nokkuð þrengri skorður en áður giltu. Ég vil meina að reynslan af setningu þeirra reglna fyrir sveitarfélögin hafi verið góð. Ég ætla að leyfa mér að vitna til samtals við einn bæjarstjóra ekki fyrir löngu síðan þar sem hann sagði: „Veistu, þetta hefur bara gerbreytt öllum vinnubrögðum á sveitarstjórnarstiginu. Nú erum við komin með skýra tölusetta reglu um það hvert við þurfum að fara og þá eru menn hættir að tala um það. Það er búið að lögfesta regluna og þá eru allir sameinaðir í því verkefni að komast þangað, niður fyrir skuldaviðmiðin sem þar hafa verið sett.“

Ég hef fengið mjög skýr dæmi um þetta. Í umræðunni um þetta mál og í greinargerðinni er talað um ýmis mistök í fortíðinni og ég ætla að biðja menn um að fara ekki að reyna að finna einhver einstök dæmi um einhver einstök mistök. Það er verið að vísa almennt til þess að við höfum í gegnum tíðina getað gert hlutina betur. Það er hægt að finna ýmis dæmi úr framkvæmd ríkisfjármálanna, líka úr framkvæmd á sveitarstjórnarstiginu. Það væri auðvitað hægt að nefna hvernig peningastefnan hefur verið framkvæmd á ólíkum tímabilum og svei mér þá, er ekki öruggt að við getum fundið mörg dæmi þess að vinnumarkaðurinn hafi ekki verið að stuðla að auknum stöðugleika? Svei mér ef það getur ekki átt við um þessar mundir líka.

En hér er verið að skoða það sem við getum haft beint áhrif á, opinber fjármál, tengingin yfir á sveitarstjórnarstigið, og reglurnar tel ég að séu holl viðmið fyrir okkur. Og ég tel, til að mæta þeim áhyggjum sem hv. þingmaður hefur, að 10. gr. frumvarpsins veiti það svigrúm sem þarf að vera til staðar þegar sérstakar aðstæður koma til okkar.