145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er enginn að amast við því, eða ég er alla vega ekki að gera það, að menn setji sér langtímamarkmið og smíði sér áætlanir á sama hátt og við setjum niður fyrir okkur samgönguáætlun til margra ára, sem við síðan tökum til reglulegrar endurskoðunar. Hún er til, ég man ekki hve margra ára, 15 ára hygg ég að það sé, 15 eða 20 ára og síðan endurskoðun á fimm ára fresti. Svo tökum við hvert ár í fjárlögum út af fyrir sig og erum stöðugt að endurskoða stöðuna, t.d. ef framkvæmd eins og Vaðlaheiðargöng fer úr böndum þurfum við að endurskoða framlög til annarra mála á samgönguáætlun.

En það sem ég er að gagnrýna er að við skulum sett undir það ægivald sem heitir fjármálaráð óvilhallra manna. Ég hef ekki enn fengið svar eða nafn og kennitölu á dæmi um hinn óvilhalla einstakling sem lokið hefur framhaldsnámi á háskólastigi á fræðasviði sem lýtur að hlutverki ráðsins og á að hafa eins konar lögregluvald yfir Alþingi Íslendinga.