145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um opinber fjármál og ef þetta frumvarp nær nú fram að ganga þegar mælt er fyrir því í þriðja skipti og það verður að lögum þá mun það hafa, vil ég leyfa mér að fullyrða, mjög jákvæð áhrif á umgerð ríkisfjármála og jákvæð áhrif á það hvernig stjórnmálamenn meðhöndla ríkisfjármálin og fjalla um þau. Ég held að það muni líka leiða til upplýstari umræðu í fjölmiðlum um ríkisfjármál og það verði aðgengilegra fyrir almenning að fylgjast með störfum okkar hér á Alþingi og að fylgjast með því hvernig skattfé borgaranna er varið.

Það er búið að fara yfir það hér en ég ætla að leyfa mér að rifja upp að þetta frumvarp á sér langa sögu. Það var hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi hæstv. fjármálaráðherra, sem hóf þá vinnu, auðvitað í því ástandi að sitja sem fjármálaráðherra með ríkissjóð í nánast altjóni, róandi lífróður til að forða landinu frá gjaldþroti. Þetta er afkvæmi mikils umbótastarfs sem fram fór á síðasta kjörtímabili á ríkisstjórnartímabili Jóhönnu Sigurðardóttur. Það var víða sem þurfti að gera lagfæringar og fara í umbætur og margar þeirra hafa tekið umtalsverðan tíma.

Síðan kom að þessu verki hv. þingmaður og þáverandi fjármálaráðherra Oddný Harðardóttir, síðan hv. þm. Katrín Júlíusdóttir sem líka var fjármálaráðherra og nú hefur hæstv. fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson tekið við keflinu og ég vil þakka honum fyrir að hafa staðið einarður með þessu verkefni og ég mun gera það sem ég get til að hjálpa honum til að koma því í höfn. Fjárlaganefnd hefur líka komið að þessu á ýmsum stigum og auðvitað hefur fjárlaganefnd sem nú er að störfum langmest unnið með þetta frumvarp. Þegar ég sat í fjárlaganefnd á síðasta kjörtímabili þá fengum við fyrst og fremst kynningu á þeirri vinnu sem í gangi var, sem var mjög mikil, og við undirbjuggum okkur vel undir þetta. Þetta hafði áhrif á umræður í nefndinni og áhuga nefndarinnar á því að bæta vinnubrögð sín og við fórum einmitt fyrri ferð fjárlaganefndar til Svíþjóðar til að kynna okkur gang mála þar og heimsóttum þar þingið, fjármálaráðuneyti, Seðlabankann, fjármálaráðið, skuldastofnunina eða stofnunina sem sér um umsýslu skulda, ríkisendurskoðanda, fjársýsluna og fleiri aðila. Það var vægast sagt lærdómsríkt og fyrir okkur meðlimi fjárlaganefndar algerlega ný upplifun að kynnast þeirri umgjörð sem þar er utan um fjármálin. En það kom ekki bara til af því að Svíþjóð hafi eitt sinn verið sæluríki sósíaldemókrata, það átti sér víðtækari skýringar. Svíar urðu rétt eins og Íslendingar fyrir alvarlegu efnahagsáfalli, alls ekki jafn alvarlegu og við en þó það alvarlegu að þar voru ríkisfjármálin algerlega tekin í gegn til að koma í veg fyrir að skuldir sliguðu útgjöldin með tímanum.

Mig langar á þessu stigi að nota tækifærið og þakka því fjölmarga fólki sem hefur komið að þessari vinnu, flest er það auðvitað embættismenn á vegum ríkisins en ýmsir fleiri hafa komið að verkefninu og lagt í það ómælda vinnu með það sameiginlega markmið að bæta til lengri tíma hag ríkissjóðs og okkar allra.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði hér að umtalsefni 7. gr. og það gerði ekki síður hv. þm. Oddný Harðardóttir varðandi skilyrði fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Ég get algerlega tekið undir þær áhyggjur að auðvitað getum við ekki með lögum afsagt okkur möguleikanum á því að vinna gegn efnahagsþrengingum með virkri stefnu í ríkisfjármálum. Það er náttúrlega grundvöllurinn að þeirri keynesísku pólitík sem við stunduðum á síðasta kjörtímabili sem hefur orðið hér fyrirmynd annarra ríkja og í raun og veru, hvað á maður að segja, „benchmark“ fyrir það hvernig á að beita ríkisfjármálunum og það við mjög erfiðar aðstæður þar sem við gátum ekki leyft okkur mikið. En lagastoðin eða lagaákvæðið má einfaldlega vera þannig að það sé meginreglan en svo séu augljósir mælikvarðar um hvenær má víkja frá því og svo er auðvitað alltaf hægt að gera undantekningar. Þá vil ég taka fram að ég er ekki að grafa undan því að við eigum að taka alvarlega þessa löggjöf en það verður að vera skynsamlegt svigrúm til að grípa til nauðsynlegra efnahagsaðgerða á sviði ríkisfjármála til að bregðast við efnahagsþrengingum.

Og af því að hér var komið að því að ræða ábyrga efnahagsstjórn vinstri manna þá langaði mig bara að leyfa mér að gorta aðeins af því hvað við stóðum okkur vel, við stóðum okkur svo vel að núna er veisla í höllinni. Nú er fólk að lækka skatta vinstri, hægri, reyndar enn að skera niður í gríðarlega mikilvægri almannaþjónustu sem er svolítið sérstakt, að leyfa ekki þeim sem báru byrðarnar að njóta góðærisins, en svo vel tókst til að fylgja agaðri hagstjórn á síðasta kjörtímabili að núverandi ríkisstjórn getur haldið veislu. Verst að hún er ekki fyrir alla, bara fyrir útvalda vini þeirra en það er okkar í minni hlutanum að berjast gegn því.

Það verður alltaf deilumál hver stærð ríkissjóðs á að vera, hvað umfang ríkissjóðs á að vera í vergri landsframleiðslu. Það verður áfram pólitískt bitbein óháð því hvort lagaumgjörð sem þessi verður til staðar. Hún segir okkur hvernig við eigum að meðhöndla ríkisfjármálin en ekki hversu umsvifamikill ríkissjóður á að vera í hagkerfinu og þar mun ég ekki hvika frá þeirri sannfæringu minni að við eigum að hafa stóran og öflugan ríkissjóð sem heldur uppi kerfunum sem við eigum öll saman, heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, löggæslunni og fleiri kerfum sem gera samfélag að góðu og siðuðu samfélagi sem við rekum saman.

Ég fór yfir það í andsvari við hæstv. fjármálaráðherra að ég teldi vanta í frumvarpið svolítið meiri áherslu á Alþingi. Ég hvet fjárlaganefnd til að skoða það. Hún er auðvitað búin að fjalla um þetta mál áður og afgreiða frá nefndinni, því miður í örlitlum ágreiningi, og ég get eiginlega get ekki skilið að það hafi ekki verið hægt að finna leið þar sem aðilar mættust og ég hvet líka fjármálaráðherra til að blanda sér í það. Það hlýtur að vera í hag allra að hægt sé að gefa eitthvað eftir til að ná öllum um borð sameiginlega og mér skilst að það hafi helst verið ein grein sem styrinn stóð um. En ég hvet fjárlaganefnd sem er búin að fjalla mjög ítarlega um þetta mál að taka sér tíma í það að fara yfir hvað þurfi að gerast hér á Alþingi til að við verðum sterkur aðili í þessu sambandi því við erum fjárveitingavaldið. Við þurfum að hafa á að skipa sérfræðingum og þeim tækjum sem til þarf til að geta sinnt því hlutverki vel og til að geta borið þá ábyrgð sem við eigum að bera sem kjörnir fulltrúar á Alþingi.

Það var einmitt svo þegar við fórum í okkar frægu Svíþjóðarferð — þá fyrri, ég veit að ný fjárlaganefnd hefur líka farið til Svíþjóðar og er það vel því þar er margt gott hægt að læra — að þar vakti athygli okkar að í þinginu er starfandi sérstök fjárlagaskrifstofa sem hefur á að skipa góðum sérfræðingum og þar leggja t.d. flokkar í minni hluta fram sín eigin fjárlagafrumvörp sem breytingartillögu við fjárlagafrumvörp ríkisstjórnarinnar. Það er eðlilega ekki hægt með núverandi fjárlagafrumvarpi, það er annars eðlis, það er af öðrum skóla, það er af eldri gerð, en íslenska fjárlagafrumvarpið, verði þetta frumvarp að lögum, mun verða mjög líkt því sænska með svið og undirflokka. Þá verður það að vera þannig að við, með aðstoð aðila sem starfa á okkar vegum, getum fengið greiningar og umfjöllun um mál. Ég sem alþingismaður treysti vel íslenskri stjórnsýslu, sæki þangað upplýsingar, fæ þaðan upplýsingar og lít svo á að þeir sem þarf starfa starfi í mína þágu. En Alþingi getur ekki sætt sig við að það eigi ekki upplýsingaveitur og greiningaraðila innan sinna vébanda. Það er kannski af því að það er lenska á Íslandi að tala um stjórnsýsluna eins og óþarfa eða einhverja fitu sem helst eigi að skera. Þessi ríkisstjórn hefur skorið niður af geðþótta milli umræðna í stjórnsýslunni, það er viðhorfið sem ríkir þar á bæ til stjórnsýslunnar, en þetta er stjórnsýslan, sú eining sem á að halda utan um að framfylgt sé löggjöf á Íslandi. Þetta eru þjónar fólksins í landinu og eiga að starfa með almannahagsmuni að leiðarljósi. Það sama á við um starfsfólk Alþingis. Það vinnur að því að hér fáist fram sem vönduðust vinna þannig að við sem hingað erum valin fáum sem besta aðstoð við að fá upplýsingar og að greina þær síðan til að geta tekið ákvörðun á grundvelli þeirra greininga.

Það er kannski í meginatriðum tvennt sem ég vildi koma inn á og er þegar búin að nefna, það er í fyrsta lagi 7. gr. Mér finnst full ástæða til að skoða með hvaða hætti er hægt að hafa hana þannig að við komum ekki í veg fyrir að ríkissjóður geti unnið gegn efnahagsþrengingum án þess þó að gefa eftir þá hugmynd að halda uppi nokkuð stífum römmum. Í öðru lagi er það þannig að ég tel að Alþingi þurfi að fá miklu meiri stuðning til að geta orðið sterkur aðili í þessu samstarfi um ríkisfjármálin. En í þriðja lagi langaði mig að nefna 13. gr., um fjármálaráðið. Mig rekur ekki minni til þess úr fyrri umræðu, það kann að vera misminni en ég velti fyrir mér hvort fulltrúarnir megi ekki vera fleiri en þrír. Ég held að það færi betur á því að þeir væru fimm. Ég ætla ekki að slást fyrir þessu en ég tel fulla ástæðu til að skoða það því þetta verða aðilar með mjög mikið umboð og vald til að gefa einkunn um framgöngu stjórnmálamanna á sviði ríkisfjármála og þá er mikilvægt að breiður hópur komi að slíkri einkunn.