145. löggjafarþing — 10. fundur,  22. sept. 2015.

opinber fjármál.

148. mál
[20:49]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Mig langar aðeins að leggja orð í belg, sérstaklega vegna þess að mér finnst þetta mjög merkilegt frumvarp. Það er varla hægt að hafa neitt á móti markmiðum þess að mínu mati. Hér er verið að búa til reglur um það hvernig við högum fjárlagagerðinni sem hefur ekki verið mjög nútímaleg hingað til. Vafalaust hafa fjárreiðulögin frá 1997, held ég að megi segja, verið bót á en bráðum verða 20 ár síðan árið 1997 var þannig að það er kannski kominn tími til að uppfæra þau. Ég held að þetta sé mjög merkilegt frumvarp og þó að það þýði auðvitað ekki að ég sé sammála nákvæmlega öllu sem í því er er ég í grunninn ánægð með það.

Það eru engin ný sannindi að hagstjórn hefur ekki verið aðalsmerki Íslendinga. Það kemur fram í greinargerðinni með frumvarpinu. Það er svo sem ekkert nýtt við það en hérna er verið að taka á því og mjög merkilegt reynt sé að tengja saman öll opinber fjármál, sveitarstjórnar- og ríkisfjármál. Mér fannst mjög vel orðað í umræðunni í dag það sem hv. þm. Óttarr Proppé sagði, að það væru ekki tveir vasar sem þyrftu að slást, þetta væri allt sitt hvert. Fólk almennt gerir ekki eins mikinn greinarmun á ríkisfjármálum og fjármálum sveitarfélaga og sveitarstjórnarmenn gera og fólkið í fjárlagagerðinni. Þó að ég fáist við þetta í þinginu þá geri ég ekki þennan mikla greinarmun á fjármagni sveitarfélaga og ríkisins þó að auðvitað sé það gert í fjármálaráðuneytinu. Ég held að það sé mjög gott að þarna skuli verið að taka á þessu og ná utan um það í samhengi.

Síðan eru settar fjármálareglur. Almennu grunngildunum í 6. gr. held ég að sé mjög erfitt að vera ósammála. Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson hefur lagt til að þar sé einu bætt við, þ.e. forsjálni. Það má vel vera, en ég held að enginn sé á móti því að það eigi að hafa þessi grunngildi að leiðarljósi. Síðan koma fjármálareglur í 7. gr. og auðvitað má um þær deila. Eru þær of strangar? Veita þær ekki nóg svigrúm til að beita opinberum fjármálum, ríkissjóði og þess vegna sveitarfélögum, t.d. í niðursveiflu af því að það væri fyrst og fremst þá, þegar hagsveiflan er niðri, sem menn vildu kannski beita ríkisfjármálunum? Það þarf bara að ræða um það. Mjög ítarleg umræða þarf að fara fram um það og samspilið á milli 7. gr. og 10. gr. sem segir hvenær megi víkja frá þessum reglum. Það hlýtur að verða gert í fjárlaganefnd. Mér finnst áríðandi að fólk fari vel í gegnum það og hlusti hvert á annað í þeim viðræðum.

Nýtt ferli er um það hvernig fjárlög eru samþykkt. Við fengum nasasjón af því í vor þegar ríkisfjármálaáætlunin var lögð fram. Auðvitað þýðir það ekki að pólitíkin komi ekki nálægt fjárlagagerðinni því að hún gerir það vegna þess að áherslurnar hljóta að vera í fjármálaáætluninni eins og við sögðum hérna í vor. Þess vegna sögðu sum okkar að við söknuðum framsóknarmanna af því að þeir tóku engan þátt í umræðunni. Við sögðum: Hér er verið að leggja pólitíska áherslu til fjögurra ára og eruð þið alveg sammála henni? Það verður auðvitað áfram lagt í fjármálaáætlunina á vorin.

Kannski hef ég misskilið hv. þm. Ögmund Jónasson en mér finnst hann ekki bara vera hræddur við þessa fjármálareglu eða fjárlagareglu heldur líka ferilinn í þinginu, hvað sé ákveðið í þinginu, þetta sé allt komið í einhverja ramma og þingið geti þá ekki verndað litlar stofnanir og þar fram eftir götunum. Þess vegna held ég að hv. þm. Oddný G. Harðardóttir hafi lagt til, einhvers staðar heyrði ég hana gera það, að sett yrði upp einhvers konar leikrit eða skema um það hvernig þetta yrði unnið í þinginu þannig að við sæjum það fyrir okkur hvernig ramminn yrði. Því miður gafst ekki tími til þess í fjármálaáætluninni sem var lögð fram í vor þar sem menn voru í fyrsta skipti að reyna sig áfram, þá voru þessir rammar ekki þannig. Ég held að það væri mjög gott ef þingmenn sæju það fyrir sér hvernig þessir rammar litu út, hvað þingið væri að ákveða, hver skiptingin yrði og síðar kæmi það í fjárlögum. Ég held að það væri mjög gott ef það væri hægt að búa til einhverjar svoleiðis leikreglur.

Hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir hefur lagt áherslu á að þingið þurfi viðbótarstuðning til að fást við ríkisfjármálin og ferlið. Það má taka undir það. Síðan kom fram í ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, þegar hún vitnaði í Þórólf Matthíasson, sem er nú ekki gamall maður en hann er samt gamli prófessorinn minn, að kannski væri rétt að setja upp nýja þjóðhagsstofnun eins og þá sem lögð var af og þar yrðu markmiðin sett en ekki endilega bundin í lög. Það má svo sem vel vera líka.

Ég minni á að við samþykktum í þingsal fræga þingsályktun. Var hún ekki kölluð 63:0-þingsályktunin? Þegar skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um hrun bankanna var afgreidd hér samþykktum við að það ætti að setja upp nýja þjóðhagsstofnun. Mér finnst vera kominn tími til að við hugum að því. Ég held að það sé nauðsynlegt óháð því að við erum að fara í svo miklar breytingar á meðferð ríkisfjármálanna. Svo má kannski segja að þenslan og allt sem varð hér upp úr 2000 eða þar um bil — það var akkúrat á þeim tíma sem Þjóðhagsstofnun var lögð niður og þá var ekki lengur óháð stofnun sem fjallaði um efnahagslífið. Ég held að þótt við værum komið með gott ferli um það hvernig fjárlög eru sett og farið er með ríkisfjármál þá væri nauðsynlegt að við fengjum óháða efnahagsstofnun sem starfaði hér við rannsóknir og áætlanir fram í tímann og yrði til upplýsingar fyrir alla, fyrir atvinnulífið, fyrir okkur og allt fólk. Ég tel að þetta frumvarp sé bara bylting í því hvernig við nálgumst ríkisfjármálin en þó er enn þörf á óháðri stofnun um efnahagsmál í landinu. Ég held að við ættum að fara að uppfylla það loforð sem við gáfum okkur um það að setja á fót slíka stofnun.

Ég endurtek það sem ég sagði í upphafi: Ég er ekki að segja að það sé ekki eitthvað sem megi breyta í frumvarpinu og haga einhvern veginn öðruvísi. Það verður að skoða þetta í kjölinn. Það þarf sérstaklega að skoða fjármálareglurnar í 7. gr. og samspilið við 10. gr. sem gefur leyfi til undantekninga frá því að fara eftir þessum stífu reglum. Að öðru leyti fagna ég þessu verki.