145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér hagstjórn. Færa má rök fyrir því að við höfum ekki farið nægilega varlega á síðasta áratug þegar ljós tóku að blikka í efnahagsuppsveiflunni að horfast í augu við stöðuna þá. Á sama tíma og við ræðum opinskátt og reglulega hér í sölum Alþingis um efnahagsmálin er afar mikilvægt og jákvætt að fjölmiðlarnir taki þau skipulega fyrir og sinni hlutverki sínu að því marki að veita aðhald og upplýsa og gefa þannig öllum færi til að átta sig á þróuninni.

Miðlarnir standa sig margir hverjir býsna vel í þessu hlutverki. Nú síðast í dag er ágætissamantekt í fylgiriti Fréttablaðsins, Markaðnum, og greining á þeirri efnahagsstöðu og efnahagshorfum sem uppi eru. Þar er að finna samantekt á þeim þáttum sem gefa bendingar um að hagkerfið sé að ofhitna sem eru ekki nýjar upplýsingar en samantekt sem nýtist öllum um aukinn hagvöxt, atvinnuuppbyggingu, þær fjárfestingar sem fram undan eru og vinnumarkaðinn, um mögulegan skort á vinnuafli til verkefna í byggingariðnaði og úrræði til að bregðast við fjölgun ferðamanna. Þetta eru þeir hagvísar sem við horfum gjarnan til þegar við metum sveifluna í hagkerfinu.

Ég hef, virðulegi forseti, rætt hér um aukið samspil peningastefnu og fjármálastefnu. Lagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra um opinber fjármál er innlegg í þá framtíðarsýn og þá blasir við samspilið við peningamálastefnuna. Brýnast í þessu samhengi er í mínum huga að skapa skilyrði fyrir lægri vexti fyrir atvinnulífið og heimilin. Hluti af því er að taka úr sambandi það vaxtaform sem heimilin búa við þegar þau fjárfesta í húsnæði og kallast verðtrygging.

Virðulegi forseti. Skuldahlið heimilanna á ekki að fjármagna uppsveifluna. Það má ekki gerast, ekki í þetta skiptið.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna