145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:43]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Íslenska heilbrigðiskerfið stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum sem og heilbrigðiskerfi annarra þjóða. Eitt af stóru málunum hér á Íslandi sem og víðast hvar í veröldinni er vaxandi framboð nýrra og afar dýrra líftæknilyfja. Það hafa komið fram slík lyf sem veita sjúklingum von um lækningu eða mikla bót við sjúkdómum sem áður var erfitt eða jafnvel ekki hægt að meðhöndla en sum þeirra eru svo dýr að það er nær útilokað, jafnvel fyrir ríkustu þjóðir, að taka þau í almenna notkun.

Þegar sú krafa er sett fram í umræðunni að ráðherra útvegi einstaklingi lyf sem kosta um 10 millj. kr. er hvorki gætt að því að það er ekki hlutverk ráðherra að útvega einstaklingi lyf né að það kunni að vera um þúsund sjúklingar sem eigi þá sama rétt á þessu tiltekna lyfi. Til að menn átti sig á samhenginu þá er á fjárlögum þessa árs gert ráð fyrir tæplega 6,5 milljörðum kr. í fjárheimildum vegna allra S-merktra lyfja. Þó að öll sú fjárheimild færi í umrædd lyf fyrir alla sjúklinga sem taldir eru vera með lifrarbólgu C dygði fjárheimild þessa árs ekki til. Af þessu má sjá að nauðsynlegt er að forgangsraða innan fjárheimilda og láta þá njóta forgangs sem veikastir eru. Þetta gera allar okkar nágrannaþjóðir og forgangsröðunin hér á Íslandi er byggð á faglegu mati samkvæmt laga- og regluverki sem um það gildir. En eins og aðrar þjóðir finnum við hvernig það verður æ erfiðara að mæta væntingum og réttindum fólks vegna þessara nýju lyfja innan þess fjárhagsramma sem settur er í fjárlögum. Öll lönd, bæði lítil og stór, eiga í vaxandi mæli í erfiðleikum með að tryggja aðgengi að nýjum og dýrum lyfjum og gera áætlanir um notkun þeirra innan fjárheimilda. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, Evrópuráðið og önnur alþjóðasamtök hafa að undanförnu reynt að kortleggja viðbrögð landa við vandanum og hvaða aðgerðir skili bestum árangri. Almennt er hvatt til samstarfs milli landa um lausnir og ljóst er að lítið land eins og Ísland ræður ekki eitt og sér við ýmislegt sem talið er nauðsynlegt í stærri löndum.

Vegna þessa hef ég talið meðal annars nauðsynlegt að ná samstöðu með nágrannaþjóðum og öðrum þjóðum um samstarf á sviði lyfjamála. Tillaga mín um að Norðurlandaþjóðir taki upp formlegt samstarf vegna þeirra nýju og dýru lyfja sem helst íþyngja heilbrigðiskerfum landanna er til skoðunar á vettvangi norrænna heilbrigðisráðherra og ég hef ítrekað tekið málið upp við samstarfsráðherra mína. Ég sé fyrir mér að samstarf á þessu sviði geti tekið til ákvarðana um aðgengi að nýjum og kostnaðarsömum lyfjum, verðlagningu og samningum um verð, greiðsluþátttöku, innkaupaútboða o.fl. Þessi mál voru einnig rædd að frumkvæði danska heilbrigðisráðherrans á fundi norrænna heilbrigðisráðherra 9. september síðastliðinn í Kaupmannahöfn þar sem ályktað var um að efla samstarf Norðurlanda í þessum efnum. Ég hef líka lýst því yfir hér úr þessum ræðustóli að það er nauðsynlegt að breyta lögum um opinber innkaup til að gera okkur þetta kleift.

Ég vil enn fremur nefna að þetta snýst ekki bara um verð á lyfjum, þetta snýst líka um forgangsröðun. Þannig háttar til, hv. þingmaður sem vakti þessa umræðu, að landlæknar Norðurlandanna hittust árið 2013 til að ræða samvinnu norrænu landanna um forgangsröðun innan heilbrigðiskerfisins þannig að þessi umræða er ekki bundin við Ísland. Það ár var settur á laggirnar vinnuhópur sem skilaði áliti seint að hausti 2013 og á þeim grunni var síðan haldið aðeins áfram. Landlæknar Norðurlandanna funduðu aftur í fyrra og tóku málið aðeins lengra og núna, fyrir fjórum eða fimm dögum, hittust norrænir landlæknar á fundi í Ósló og þangað fór Birgir Jakobsson, landlæknir okkar á Íslandi, til þess að ræða þessi mál.

Finnland, Svíþjóð, Noregur hafa öll skipað ráð innan sinna vébanda til að takast á við forgangsröðun meðan staðan er önnur á Íslandi og í Danmörku. Noregur hefur sett sér markið hæst, þar eru menn byrjaðir að vinna í því að leita að aðferðum til að forgangsraða milli sjúkdóma, milli sjúklinga á annan hátt en hin löndin gera og ég skal alveg viðurkenna að þessi aðferð hugnast mér ekki. Hún var reynd í Svíþjóð fyrir aldamótin og Svíar gáfust upp á henni. En ég nefni þetta hér vegna þess að þetta er ekki vandamál sem er bundið við Ísland né þau stjórnvöld sem þar ríkja á hverjum tíma. Þetta er sameiginlegt viðfangsefni flestra þjóða og sem betur fer er heilbrigðisstarfsfólk okkar á Norðurlöndunum að ræða mögulegt samstarf og nálgun að því að vinna betur í þessum málaflokki en (Forseti hringir.) Norðurlöndin hafa getað gert hvert og eitt í sínu lagi.