145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[15:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir umræðuna. Það var tímabært að taka akkúrat þessa umræðu um S-merktu lyfin því að við vitum öll hvað þau geta gert fyrir þá sem þurfa að nota þau. Hér hefur verið talað um lyfjarisa og álagningu; hér þurfum við líka að ræða siðferðisspurningar o.fl. Það ber að þakka. Hér merki ég nokkuð góðan skilning. Við erum öll á svipuðum stað varðandi þessi mál.

Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir skýr svör og skýra sýn. Ég get tekið undir þá sýn sem hann hefur. Auðvitað þurfum við að vera í samfloti með öðrum Norðurlandaþjóðum í þessum málum. Að sjálfsögðu, segi ég. Hvers vegna ættum við að vera að finna upp hjólið hér, um 320 þús. manns?

Þetta er mjög stór fjárlagaliður í fjárlögum hvers árs. Ég ætla að nota tækifærið hér út af því að það er verið að ræða þessi lyfjamál í sérstakri umræðu og nefna að krónutölulækkun í fjárlögum fyrir árið 2016 stafar ekki af niðurskurði eða því að við séum að minnka notkun á S-merktum lyfjum. Hún stafar fyrst og fremst af því að það er hagstætt gengi á krónunni gagnvart evrunni svo að því sé í eitt skipti fyrir öll komið hér á framfæri þannig að þeim misskilningi sé ekki haldið áfram á floti að við séum að draga úr í fjárlögum milli ára.

Ég vonast til þess að samvinnan á Norðurlöndum haldi áfram og verði farsæl fyrir okkur sem þjóðríki. Það skal ekki standa á mér að verða þátttakandi í því að breyta lögunum um opinber innkaup til að sá veruleiki geti blasað við okkur (Forseti hringir.) að við getum farið að kaupa ódýrari mikilvæg (Forseti hringir.) lyf.