145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[16:09]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Ég er að hugsa um að taka upp þráðinn frá hv. þm. Guðmundi Steingrímssyni. Mér finnst mjög brýnt að við fáum upplýsingar frá hæstv. heilbrigðisráðherra og jafnvel velferðarráðherra um hvað veikindi fólks kosta, og þá ekki eingöngu út frá lyfjameðferð þegar fólk er orðið það veikt að það er ekki sjálfbjarga og þarf jafnvel að fara í blóðskiptimeðferðir, heldur hvað það kostar samfélagið að hafa sjúkt fólk sem getur verið heilbrigt? Hvað kostar það?

Það kostar meira en peninga. Það getur líka kostað gæði hjá fjölskylduaðilanum sem er veikur. Ef til er lyf eins og þetta tiltekna lyf sem læknar lifrarbólgu C, þá eigum við að gera allt sem við getum til að tryggja að fólk læknist.

Það vill svo til að ég á vin sem býr erlendis sem sendi mér skeyti um daginn. Hann er svo lánsamur að hafa verið í slíkri lyfjameðferð. Hann sendi mér skeytið: Ég er læknaður. Það eru stórkostleg tíðindi. Það tók ekki langan tíma fyrir þennan vin minn að vera í lyfjameðferð og hann mun aldrei þurfa að glíma við alla þá erfiðleika sem fylgja lifrarbólgu C þegar hún er komin langt.

Mig langar til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. velferðarráðherra einhendi sér í að taka saman samfélagslegan og heilsufarslegan kostnað við það að aðstoða fólk ekki við að ná fullri heilsu.