145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[16:11]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Ég man eftir atviki á síðasta kjörtímabili þegar við fórum um 700 milljónir fram yfir þennan lið, S-merkt lyf, á fjárlögum. Ég spurði auðvitað á þeim tíma hvernig á þessu stæði og svarið var að þennan lið væri erfitt að negla niður svo að vel væri vegna eðlis hans, það væru sveiflur í því hvar kostnaður kæmi niður í heilbrigðisþjónustu vegna eðlis starfseminnar. Það er ekki hægt að áætla alla skapaða hluti upp á punkt og prik. Þess vegna tel ég að út úr þessari umræðu verði að koma skýr skilaboð frá ráðherranum um að við horfum heldur á líf og limi en fjárlagarammann. Við verðum að þola það að þessi fjárlagaliður geti sveiflast til.

Í öðru lagi ætla ég að nefna að ég fagna því sem ráðherrann segir um að verið sé að skoða samstarf á milli Norðurlandaþjóðanna um útboð og fleira til að reyna að ná kostnaði niður. Ég hvet menn til dáða í því en á sama tíma ætla ég að segja að auðvitað verði að gera áætlun um það með hvaða hætti menn innleiða lyf sem lækna og við munum sjá meira af í náinni framtíð. Hvað ef það kemur hingað lyf sem læknar krabbamein sem við erum að fást við og fólk gengur í gegnum eld og brennistein í geislameðferðum, lyfjameðferðum og uppskurðum? Það getur komið lyf sem getur leyst þessar sársaukafullu aðgerðir af hólmi. Við verðum að hafa einhverja áætlun um með hvaða hætti við innleiðum það.

Virðulegi forseti. Ef við ætlum að horfa alltaf á krónur og aura þá langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Hvort kostar hið opinbera meira að láta alla eldri borgarana sem ekki fá lyfin sem geta komið í veg fyrir ótímabæra blindu (Forseti hringir.) fá þau eða að þeir verði blindir? (Forseti hringir.) Hvað kostar það samfélagið, heimilin, heilbrigðiskerfið?