145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

réttur til lyfjameðferðar í heilbrigðisþjónustu.

[16:13]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég heyri að hv. þingmenn eru misvel heima í því regluverki sem um málaflokkinn gildir. Ég leyfi mér til dæmis að fullyrða það og segja það hér, í tilefni þess að kallað er eftir sterkara faglegu mati og samræmingu, að þetta er allt til. Lögin um lyfjagreiðslunefnd og lyfjanefndir spítalanna, kostnaðarnefnd spítalanna o.s.frv. — þetta er allt saman unnið á faglegum grunni. Löggjöfin sem verið er að vinna eftir gerir ráð fyrir að allar ákvarðanir í þessum málum séu teknar á faglegum og fjárhagslegum forsendum og það er eingöngu fagfólk okkar sem vinnur í því. Áætlunin sem unnið er eftir er samkvæmt erindi frá Landspítalanum að stærstum hluta.

Í þessu tilviki kemur inn erindi 12. júní á þessu ári, um þetta tiltekna lyf sem mest hefur verið í umræðunni. Landspítalinn bregst við og byrjar að innleiða og undirbúa notkun þess 26. júní á sama ári. Til samanburðar, út af samjöfnuðinum við aðrar Norðurlandaþjóðir, eru 40 einstaklingar komnir á þetta tiltekna lyf í Noregi núna þegar við erum að undirbúa 30 hér. Það var enginn í fyrra í Noregi.

Mér finnst ekki rétt að ræða þetta á þessum forsendum. Ég leyfir mér að fullyrða að allt okkar ágæta fólk sem er að vinna í þessum geira er ekki bara að horfa á krónur og aura. Það er að reyna að forgangsraða eftir sjúkdómategundum, eftir ástandi sjúklinga o.s.frv. Ég treysti því mjög vel til allra verka og veit að það er allt af vilja gert til að við höldum þeirri stöðu okkur sem við höfum hingað til haft í samfélagi þjóðanna og ekki síst meðal Norðurlandaþjóða.

Við vorum með þá stefnu áður að vera fyrr en allar hinar Norðurlandaþjóðirnar (Forseti hringir.) en nú erum við aðeins á eftir eða jafnhliða þeim við innleiðingu lyfja. Ég leyfi mér að fullyrða (Forseti hringir.) að þetta er allt í þokkalegasta standi hjá okkur (Forseti hringir.) þó svo að vissulega getum við alltaf, á þessu sviði sem og öðrum, gert betur.