145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:04]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013, en um þau lög gildir býsna óvenjuleg staða, þ.e. þau hafa búið við frestun á gildistöku allt frá því þau voru afgreidd hér frá Alþingi. Til að byrja með var það hluti af samkomulagi um þinglok fyrir kosningar 2013 að breyta nokkrum ákvæðum í því frumvarpi og í þeim lögum, en fyrst og fremst að fresta gildistöku laganna. Þegar svo ný ríkisstjórn tók við að afloknum kosningum, núverandi ríkisstjórn, var mjög snemma orðað að réttast væri að fella þessi lög úr gildi og byrja upp á nýtt. Það var í raun og veru það frumvarp sem hv. umhverfis- og samgöngunefnd fékk í hendurnar, en með því að fólk bar gæfu til þess að hlusta á sjónarmið hver annars tókst að afstýra því að sú vinna sem hafði þá verið í gangi í raun og veru alveg frá kosningum 2009 færi forgörðum. Þannig að sem betur fer tókst að afstýra því óhappi eða þeim illa ásetningi, svo maður orði það nú bara eins og það var, að kasta fyrir borð fjögurra ára vinnu.

Eitt af þeim verkefnum sem ég fékk við stjórnarskiptin á árinu 2009 eftir efnahagshrunið var heildarendurskoðun náttúruverndarlaga. Það er til þess að minna okkur á að ef við viljum vinna vel þá veitir ekkert af kjörtímabili, það veitir ekkert af heilum fjórum árum ef til stendur að vinna verkefni vel. Við sjáum dæmi um slíka vinnu til að mynda í endurskoðun útlendingalaga sem er vinna sem stendur yfir núna og á í raun og veru rætur allt aftur á síðasta kjörtímabil. Til þess að vel takist til í svona stórum verkefnum þarf góðan tíma og mikla fræðilega vinnu. Á þessum tímapunkti vildi ég í samráði við þá sérfræðinga sem ég kallaði til freista þess að breyta um vinnubrögð. Ég tel raunar að sú vinna sé að mörgu leyti til fyrirmyndar, þá er ég ekki að taka afstöðu til einstakra efnisatriða eða niðurstöðu frumvarpsins eins og það var lagt fram í þeirri tíð, heldur kannski miklu frekar að horfa til þess að þarna var viðhaft það verklag að setja saman nokkurs konar hvítbók um náttúruverndarlög á Íslandi, þ.e. bók sem fæli í sér kortlagningu á náttúruverndarlöggjöfinni á Íslandi og sú kortlagning væri því sem næst tæmandi. Það var markmiðið og var gert fyrst og fremst kannski sænskri og norskri fyrirmynd, að í staðinn fyrir að taka gömlu lögin og setja tvo eða þrjá góða sérfræðinga og ráðuneytisstarfsmenn í það að uppfæra lögin og endurskoða þau og koma svo með frumvarp inn í þingið, þá vorum við að reyna að nálgast nýjan byrjunarreit með því að finna hvar landið væri fast undir fótum og byrja þar, annars vegar með lögin frá 1999 annars vegar og hins vegar með bestu þekkingu á þeim tímapunkti, bæði að því er varðar fagið sjálft, náttúruvernd, með því að vera í samráði við okkar bestu vísindamenn og þær stofnanir sem fara með náttúruvernd á Íslandi, Náttúrufræðistofnun Íslands og Umhverfisstofnun, en ekki síður að hafa ríkt og öflugt samráð við okkar helstu sérfræðinga í stjórnsýslunni sem þurfa að framfylgja lögum um náttúruvernd á hverjum tíma. Þá er ég fyrst og fremst að horfa til þeirra sem hafa með umsýslu og utanumhald friðlýstra svæða að gera og ferli við friðlýsingar o.s.frv.

Þegar þessi grundvöllur lá fyrir sem var upp á meira en hundrað blaðsíður, taldi ég vænlegast að leggja þá vinnu fram til umsagnar, þ.e. áður en við byrjuðum að skrifa frumvarpið. Í þeirri átakahefð sem við erum vönust skapaðist fljótt tortryggni gagnvart þessari hvítbók og einhverjir aðilar litu á hana sem niðurstöðu ráðherra, sem niðurstöðu meiri hlutans á þeim tíma. Ég hef verið mjög hugsi yfir því hvernig málinu síðan reiddi af, vegna þess að að sumu leyti vorum við komin á þeim tímapunkti í ákveðinn átakafarveg sem fylgdi málinu alveg í gegnum þingið. Þá vil ég sérstaklega nefna kafla um utanvegaakstur og kafla um innflutning og dreifingu á ágengum og framandi tegundum, kannski fyrst og fremst þessa tvo kafla og þau ákvæði sem þá varðaði. En ég er samt sem áður enn þá þeirrar skoðunar að þetta verklag sé gott, að við eigum að reyna að hafa opið og aðgengilegt umsagnarferli allan tímann, þ.e. meðan verið er að vinna grunnvinnuna í ráðuneytinu þá eigum við að vera með möguleika á aðkomu þeirra sem þurfa að hafa með lögin að gera á síðari stigum en ekki síður grasrótarhreyfinga, samtaka almennings og áhugafólks um allt samfélag.

Þegar við erum að tala um svona stórt mál sem er náttúruvernd þá hefur nánast hver einasti maður einhverja skoðun af því náttúruvernd, sem hefur á sér þetta jákvæða yfirbragð, þ.e. að vernda náttúru landsins, felur um leið í sér takmarkanir á því sem maðurinn má gera. Þetta er því í raun og veru löggjöf sem snýst ekki síður um það að reisa skorður við því að maðurinn gangi á rétt náttúrunnar. Í landi og í samfélagi sem hefur mjög ríka frekjuhefð ef ég leyfi mér bara að orða það þannig eru mjög margir öflugir hagsmunaaðilar sem rísa upp þegar stendur til að ganga á eða takmarka rétt viðkomandi tilkomandi til þess að aðhafast.

Um þetta verðum við auðvitað alltaf að vera meðvituð. Ég var kannski sérlega upptekin af því, kannski sem ráðherra úr grænum flokki en líka vegna þess að það er í anda náttúruverndarlöggjafar í löndunum í kringum okkur og það sem helst er að gerast á vettvangi Sameinuðu þjóðanna varðandi náttúruvernd, að það væri mitt hlutverk og okkar á Alþingi að tryggja það að lög um náttúruvernd stæðu undir nafni sem slík, þ.e. þau séu til þess að verja náttúruna en ekki til þess að milda orðalag og tryggja að engum finnist að sínum rétti vegið til þess að aðhafast nánast hvað sem er.

Í þeim anda var frumvarpið lagt fram á sínum tíma og í þeim anda voru lög nr. 60/2013 þegar þau voru samþykkt hér stuttu fyrir kosningar á því ári.

Þetta er gríðarlega mikill lagabálkur. Þetta eru yfir 90 lagagreinar. Þetta er lagabálkur sem tekur við af lögum frá 1999 og er algjörlega tímabær. Við sjáum það ef við rekjum söguna aftur á bak að það þarf að uppfæra náttúruverndarlög reglulega. Það þarf að tryggja að þau séu í takt við það sem gerist í löndunum í kringum okkur en ekki síður að þau séu í einhvers konar samtali við þróun samfélagsins að öðru leyti. Þess vegna er ekki hægt að bíða lengur eftir því að ný náttúruverndarlög taki gildi. Það munu þau gera 15. nóvember 2015 með þeim breytingum sem við komum okkur saman um hér í þinginu, í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og síðan hér í þingsal.

Þess vegna hef ég áhyggjur af tveimur þáttum frumvarpsins fyrst og fremst. Ég fór yfir annan þeirra sérstaklega í andsvari áðan við hæstv. ráðherra sem er umtalsverð þrenging á gildissviði varúðarreglunnar. Mér finnst óásættanlegt að svo langt sé gengið sem í frumvarpinu er gert og tel að hér sé um slíkt grundvallaratriði að ræða að við þurfum að gæta þess að það sé ekki sýndarframsetning á ákvæðinu í náttúruverndarlögum.

Hitt atriðið sem ég vil nefna er ákvæði 57. gr. í lögunum frá 2013 og er 37. gr. núverandi náttúruverndarlaga frá 1999, sem er oftar en ekki kallað ákvæðið um sérstaka vernd. Það snýst í raun og veru um það að tiltekin náttúrufyrirbæri, fossar og hraun og gervigígar o.s.frv., njóti einfaldlega verndar óháð því hversu varin þau eru út af fyrir sig. Hvort sem þau eru friðlýst eða ekki friðlýst, hvort þau eru á náttúruminjaskrá eða ekki, þá komum við okkur saman um einhvern lista af náttúrufyrirbærum sem njóta einfaldlega ákveðinnar virðingar og þar af leiðandi verndar.

Í lögum nr. 60/2013 segir í ákvæðinu: „Óheimilt er að raska vistkerfum og jarðminjum sem taldar eru upp í 1. og 2. mgr. nema brýna nauðsyn beri til …“ Þarna njóta þessi tilteknu náttúrufyrirbæri vafans. Það er ekki loku fyrir það skotið að það kunni brýna nauðsyn að bera til, en framkvæmdaraðila og leyfisveitanda er gert að rökstyðja það með fullnægjandi hætti þannig að það haldi.

Þessu orðalagi er breytt í því frumvarpi sem kemur fram af hendi hæstv. ráðherra með því móti að þar segir: „Forðast ber að raska vistkerfum og jarðminjum …“ Ég held að allir sjái að þarna er verið að breyta ákvæðinu þannig að það er haldlaust, það er í raun og veru ekki bara verið að veikja það, það er verið að aftengja þetta ákvæði. Ef við ætlum bara að forðast að raska vistkerfum og jarðminjum þá erum við búin að veikja ákvæðið það mikið að það er í raun og veru jafn veikt og það er í núgildandi lögum nr. 44/1999.

Margir aðilar, bæði náttúruverndarsamtök, grasrótarhreyfingar og raunar verkfræðistofur og framkvæmdaraðilar hafa tjáð þá skoðun og þá afstöðu að ákvæðið um sérstaka vernd, 37. gr. frá 1999, sé haldlaust í núverandi lögum. Það gengur ekki, herra forseti, að við séum að breyta og uppfæra náttúruverndarlög sextán árum síðar og séum áfram með ónýtt ákvæði um sérstaka vernd. Það gengur ekki að við séum að leggja til umtalsverða veikingu á varúðarreglunni í fyrsta lagi og síðan að sérstaka verndin sé bitlaus. Það gengur ekki.

Virðulegur forseti. Við eigum töluvert verk fyrir höndum hjá hv. umhverfis- og samgöngunefnd og við munum væntanlega skoða þessi mál öll vel. Við höfum knappan tíma en við munum einbeita okkur vel og í þágu íslenskrar náttúru og náttúruverndar til þess að lögin frá 60/2013 verði góð og komist í gildi með breytingum sem eru til bóta fyrir náttúruvernd á Íslandi.