145. löggjafarþing — 11. fundur,  23. sept. 2015.

náttúruvernd.

140. mál
[17:25]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vil einnig fagna sáttatóni og ég held raunar að við hv. þingmaður deilum þessum sjónarmiðum að mjög mörgu leyti. Það er auðvitað mjög mikilvægt að umhverfis- og náttúruverndarmál séu ekki einangruð við tiltekna flokka eða tilteknar víddir stjórnmálanna. Þessi mál eiga alls staðar heima og það kom raunar fram líka á fundinum í morgun að umhverfismálum vex ásmegin í pólitískri umræðu alls staðar í heiminum og færast ofar á dagskrána alls staðar. Það sem einu sinni voru utanríkismál eru núna orðin umhverfismál og þetta er farið að skarast miklu meira en það gerði.

En af því að ég nefndi hér með nokkrum þjósti græna hagkerfið rétt áðan þá langar mig að nefna verkefni sem hefur átt undir högg að sækja í tíð núverandi ríkisstjórnar og það er loftslagssjóður. Það er sjóður sem var hugsaður sérstaklega til að styðja við rannsóknir, þróun og nýsköpun í þágu þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það var sérstaklega grænn sjóður til að örva og hvetja nýsköpun í þessa átt, þ.e. að styðja sérstaklega og markvisst við grænan vöxt. Ég held að við þurfum að gera það í ríkari mæli. Við þurfum að vera með miklu tryggari fókus hvað þetta varðar. Ég hef verið mjög hugsi varðandi það og við hæstv. ráðherra höfum rætt það og þurfum að gera það aftur og oft að aðgerðaáætlun um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda verður að vera virk í öllum stofnunum. Það dugar ekki að það sé bara eitthvert prógramm einhvers staðar á einhverju borði og svo séu tölurnar bornar saman einu sinni á ári heldur þarf þetta að vera samtvinnað prógramm í öllum stofnunum samfélagsins. Það er eitthvað sem við þurfum að gera og er eitt af því sem við hv. þingmaður getum látið af okkur leiða í þessari nýfengnu samstöðu hérna.